Farsældarsáttmálinn

Farsældarsáttmálinn er verkfæri sem gerir foreldrum og öðrum sem koma að degi barnsins kleift að ræða sín á milli og setja niður ákveðin viðmið eða gildi sem þeim finnast mikilvæg til þess að styðja við þroska og farsæld allra barna í nærsamfélaginu. 

Verkfærakista Farsældarsáttmálans

Um Farsældarsáttmálann

  • Farsældarsáttmálinn kom út haustið 2023 eftir viðamikið samtal við foreldra og skólakerfið um land allt þar sem fram kom ákall um endurvakningu foreldrastarfs og valdeflingu foreldra.
  • Yfir 1.000 tillögum var safnað til þess að kortleggja megináherslur foreldra og annarra til þess að stuðla að vellíðan og farsæld allra barna en þemagreindar niðurstöður má finna í bæklingnum Umræðuefni. Þær má nota sem kveikjur til umræðna við fyrirlögn Farsældarsáttmálans.
  • Rannsóknir hafa sýnt fram á forvarnargildi samstíga foreldrahóps auk þess sem foreldrar gegna mikilvægu hlutverki að styðja við og stuðla að góðri menningu innan barnahópsins. Farsældarsáttmálinn gefur foreldrum tækifæri til þess að forma samstarf sín á milli og styrkja foreldrastarfið. 
Bóka fræðslu

Fyrirlögn

Boðið er upp á þrjár útfærslur þegar kemur að því að leggja Farsældarsáttmálann fyrir.
  1. Gerum þetta sjálf. Allt efni Farsældarsáttmálans er aðgengilegt á rafrænu formi í verkfærakistunni og prentefnið má nálgast á skrifstofu Heimilis og skóla, Skeifunni 19 að kostnaðarlausu. Stuðningsefni verkfærakistunnar ætti að nýtast öllum sem vilja leggja Farsældarsáttmálann fyrir sjálfir í sínu nærsamfélagi.
  2. Fyrirlögn í streymi. Hægt er að bóka sérfræðinga Heimilis og skóla til að kynna Farsældarsáttmálann, vinnulag og veita handleiðslu við fyrirlögnina rafrænt fyrir foreldrahópinn í upphafi vinnustofunnar. Hópurinn sér sjálfur um umræður og undirritun sáttmálans. Kostnaður er skv. fræðslugjaldskrá Heimilis og skóla.
  3. Fyrirlögn á staðnum. Hægt er að bóka sérfræðinga Heimilis og skóla til að stýra vinnustofunni, kynna Farsældarsáttmálann og leiða hópinn gegnum fyrirlögnina. Kostnaður miðast við staðsetningu, tímasetningu og stærð hópa. Bókanir sendist á bokanir@heimiliogskoli.is
Bóka fræðslu

Endurreisn foreldrastarfs eftir heimsfaraldur

Farsældarsáttmálinn er hluti af stærra verkefni sem gengur undir nafninu Endurreisn foreldrastarfs í þágu farsældar barna. Heimili og skóli skrifaði undir viðamikinn samning við Mennta- og barnamálaráðuneytið í upphafi árs 2023 um verkefnið sem miðar að því að efla foreldrastarf, virkja og valdefla foreldra og styðja við innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr.86/2021. Lesið meira um baksögu verkefnisins með því að ýta hér.
Bóka fræðslu

Gerast meðlimur í Heimili og skóla

Vertu virkur félagi í Heimili og skóla – landssamtökum foreldra.

Með því að gerast félagi styður þú við bakið á foreldrum um allt land, útgáfu á fjölbreyttu efni og færð afslátt af námskeiðum og viðburðum samtakanna.