Siðareglur Heimilis og skóla

Siðareglur Heimilis og skóla eru leiðbeiningar um það hvernig æskilegt er að starfsfólk og aðrir sem að málefnum samtakanna koma bregðist við þegar upp koma siðferðileg álitamál í störfum þeirra. Siðareglurnar, ásamt kjarnagildunum velferð, traust, samvinna og fagmennska, gefa skýrt til kynna hvað telst mikilvægt fyrir menningu og samskipti þeirra sem fyrir samtökin starfa og hvetja fólk til faglegra vinnubragða. Þær styrkja ímynd Heimilis og skóla, upplýsa um þau atriði sem lögð er áhersla á í samskiptum við almenning, efla gegnsæi, góða stjórnunarhætti og faglegt starf.  Siðareglur Heimilis og skóla ná til allra þeirra sem starfa á einn eða annan máta fyrir samtökin.

 

1. Ábyrgð gagnvart  umbjóðendum, félagsmönnum, samstarfs- og styrktaraðilum auk annarra sem til Heimilis og skóla leita.

Stjórn og starfsmenn Heimilis og skóla bera ríkar skyldur gagnvart umbjóðendum, félagsmönnum, samstarfs- og styrktaraðilum  auk annarra sem til samtakanna leita. Stjórn og starfsmenn skulu ávallt sýna virðingu og gæta trúnaðar í umræðu og við meðhöndlun viðkvæmra upplýsinga er varða málefni ofantalinna. Stjórn og starfsfólk Heimilis og skóla skuli leita leiða til að vinna eins faglega að öllum málum og kostur er, afla ítarlegra og áreiðanlegra upplýsinga um málefni sem unnið er að, og eiga heiðarleg samskipti og traust langtímasamband við alla sem málefnum samtakanna koma.  Notendum þjónustu Heimilis og skóla eru veittar upplýsingar um þjónustuna og þeim auðveldað að nota hana.  Stjórn og starfsfólk Heimilis og skóla mismuna ekki þeim sem þeir eiga í samskiptum við, hvorki á grunni þjóðernis, kyns, kynhneigðar, fötlunar, trúar, skoðana eða annars, og veita ekki fyrirgreiðslu vegna persónulegra tengsla. Stjórn og starfsmenn misnota ekki stöðu sína sem veitendur þjónustu  til að misbjóða eða svíkja traust þeirra sem til þeirra leita og nota ekki trúnaðarupplýsingar ofantalinna sér til framdráttar eða í þágu einkahagsmuna. Gætt skal öryggis og vandvirkni við meðhöndlun gagna og í rafrænum samskiptum.

 

2. Ábyrgð á vinnustað

Stjórn og starfsfólk Heimilis og skóla skuli sinna  störfum sínum af kostgæfni og  halda tryggð við markmið og orðstír samtakanna. Lögð skal áhersla á framúrskarandi  árangur, góða þjónustu og metnað í því sem samtökin taka sér fyrir hendur. Gildi Heimilis og skóla eru velferð, traust, samvinna og fagmennska og skulu þau  ríkja í samskiptum manna á milli. Ekki skal mismuna starfsfólki sbr. grein 1.

 

3. Ábyrgð gagnvart almenningi og fjölmiðlum

Í samskiptum við ytri aðila skal gæta trúverðugleika og réttsýni til að treysta ímynd samtakanna. Upplýsingar sem Heimili og skóli veita skulu vera réttar,  áreiðanlegar og gefa rétta mynd og samhengi þess sem verið er að kynna. Í samskiptum við fjölmiðla skal sýna gegnsæ vinnubrögð. Tölfræði og hugtök skulu vel skilgreind og stuðla að skýrum og réttum fréttaflutningi til almennings. Lögð er áhersla á að hafa hagsmuni almennings, félagsmanna, skjólstæðinga og umbjóðenda að leiðarljósi, án þrýstings frá eða skuldbindinga gagnvart stjórnvöldum, styrktaraðilum eða öðrum utanaðkomandi aðilum. Heimili og skóli hafa umhverfissjónarmið ávallt að leiðarljósi í rekstri sínum og sýnir með því gott fordæmi í umgengni við náttúru og samfélag.

 

4. Fjármál og verklag

Meðferð fjármuna skal vera samkvæmt viðurkenndum bókhalds- og reikningsskilavenjum og endurskoðun reikninga í höndum kjörinna skoðunarmanna og/eða löggiltra endurskoðenda. Upplýsingar um fjárhag og rekstur skulu vera gegnsæjar og settar fram á einfaldan og skýran máta. Kostnaður við rekstur skrifstofu og verkefna skal haldið innan ramma fjárhagsáætlunar og starfsfólk gæti ráðdeildar í daglegum rekstri og við meðferð fjármuna samtakanna. Farið skal að öllu leyti eftir verklagsreglum um fjáraflanir og ávallt skal skýrt til hvers fjár er aflað.  Heimili og skóli skulu gæta ráðvendni og taka ekki við styrkjum frá aðilum sem með framgöngu sinni eða starfsemi vinna gegn baráttumálum samtakanna. Leitast skal við að styrktaraðilar viti hvernig fjármunum þeirra er varið og að starfsmenn gefi ekki  misvísandi upplýsingar.

 

5. Viðbrögð við brotum á siðareglum

Þrír fulltrúar í stjórn Heimilis og skóla mynda siðanefnd samtakanna. Ef uppvíst verður um brot á siðareglum skal beina erindi til siðanefndar og skal hún taka málið til umfjöllunar og afgreiðslu með hliðsjón af lögum samtakanna og eðli brota. Brot á siðareglunum geta varðað áminningu, uppsögn á samningi eða brottvísun ef um alvarleg eða ítrekuð brot er að ræða.

Þess skal gætt að sá sem leggur fram upplýsingar um ætlað brot á siðareglum samtakanna beri ekki skaða af.

 

Samþykktar á stjórnarfundi Heimils og skóla þann 12. apríl 2012