Starfsreglur Fulltrúaráðs Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra

 

Fulltrúaráð Heimilis og skóla er samstarfs- og samráðsvettvangur foreldrafélaga í landinu. Fulltrúar svæðaráða, sem samanstanda af stjórnum foreldrafélaga, ásamt trúnaðarmönnum á þeim stöðum þar sem slík samtök starfa ekki, mynda fulltrúaráðið. Fulltrúaráðið starfar í nánum tengslum við stjórn og starfsmenn landssamtakanna. Stjórn landssamtakanna er málsvari foreldra í landinu og með tilkomu fulltrúaráðs Heimilis og skóla er mynduð breiðfylking foreldra í landinu sem vinnur að eflingu foreldrasamstarfs og gætir hagsmuna foreldra og barna á landsvísu.

1. gr.

Markmið fulltrúaráðsins er að tengja landssamtökin betur svæðaráðum foreldra um allt land í því augnamiði að raddir foreldra heyrist betur og samtakamáttur þeirra eflist. Þeim svæðaráðum sem eiga aðild að samtökunum gefst kostur á að tilnefna einn til tvo fulltrúa, (eftir legu og íbúafjölda) frá viðkomandi svæði í fulltrúaráðið til þriggja ára í senn en stærstu sveitarfélögin skulu eiga einn fulltrúa hvert, þ.e. Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Reykjanesbær, Árborg og Akureyri.

2. gr.

Stjórn landssamtakanna kallar saman fulltrúaráðið til sérstaks landsfundar einu sinni á ári eða oftar ef þurfa þykir. Leitast verði við að halda fundi utan höfuðborgarsvæðis þriðja hvert ár. Fulltrúaráðið er bakland stjórnar þar sem skipulögð og gagnkvæm upplýsingamiðlun fer fram.

3 gr.

Svæðaráð foreldra leitast við að efla foreldrasamstarf á sínu svæði. Með þátttöku í fulltrúaráði Heimilis og skóla skuldbinda viðkomandi svæðaráð sig til að skipa trúnaðarmann/fulltrúa í ráðið sem sér um að miðla upplýsingum frá starfsmönnum Heimilis og skóla til foreldra á sínu landssvæði og að taka þátt í fundum fulltrúaráðsins. Fulltrúar eru ábyrgir fyrir því að koma upplýsingum um formenn foreldrafélaga (stjórnarskipan í foreldrafélögum) á sínu svæði til Heimilis og skóla á hverju hausti. Einnig standa þeir ásamt sínum svæðaráðum reglulega fyrir námskeiðum fyrir foreldraráð, foreldrafélög og bekkjarfulltrúa með stuðningi landssamtakanna ef óskað er.

4. gr.

Tengsl fulltrúaráðs við stjórn Heimils og skóla eru m.a. á sameiginlegum fundum en verkefnastjóri er sérstakur tengiliður milli stjórnar og fulltrúaráðsins. Heimili og skóli veitir fulltrúum handleiðslu, ráðgjöf og upplýsingar m.a. með rafrænu fréttabréfi. Á heimasíðu samtakanna verður upplýsingaveita fyrir fulltrúaráðið. Einnig eru landssamtökin svæðaráðum innan handar varðandi námskeiðahald og starfsemi svæðaráðanna.

5. gr.

Fulltrúaráðinu er heimilt að tilnefna einn fulltrúa og annan til vara í ellefu manna stjórn landssamtakanna. Fulltrúi er valinn á fundi fulltrúaráðs sem haldinn skal fyrir aðalfund á hverju ári.