Lestur er ævilöng iðja

Á haustdögum 2015 var undirritaður þjóðarsáttmáli um læsi og voru það fulltrúar allra 74 sveitarfélaga landsins ásamt mennta- og menningarmálaráðherra og fulltrúum Heimilis og skóla sem undirrituðu sáttmálann. Markmið þjóðarsáttmálans er að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns og er verkefnið hluti af aðgerðaáætlun sem unnin var í kjölfar Hvítbókar mennta- og menningarmálaráðherra um umbætur í menntun.  Ekki er litið á þjóðarsáttmálann sem tímabundið átak heldur er markmiðið að byggja sterkan grunn fyrir umbætur í menntakerfinu þannig að nemendur njóti  góðs af. Með undirritun sáttmálans staðfesta aðilar sáttmálans sameiginlegan skilning á mikilvægi læsis til virkrar þátttöku í samfélaginu þannig að hver og einn geti nýtt hæfileika sína samfélaginu öllu til velferðar. En hverjir koma að þjóðarsáttmálanum og hvert er þeirra hlutverk?

Mennta- og menningarmálaráðuneyti

Í Hvítbók um umbætur í menntun var greint frá helstu áherslum og framtíðarsýn mennta- og menningarmálaráðherra. Sett voru fram tvö meginmarkmið um umbætur í menntun á Íslandi til ársins 2018:

  • 90% grunnskólanema nái lágmarksviðmiðum í lestri (úr 79%)
  • 60% nemenda ljúki námi úr framhaldsskóla á tilsettum tíma (úr 44%)

Í kjölfar Hvítbókar var gefinn út bæklingurinn Hvernig getum við bætt menntun barna okkar?Þar var m.a. greint frá eftirfylgni með áherslum Hvítbókar. Einnig var gefið út kynningarrit um grunnskólamál undir yfirskriftinni Nýir tímar en þar voru útskýrðar helstu breytingar sem yfir standa í grunnskólum landsins. Þessar breytingar fela m.a. í sér aukna áherslu á hæfni og læsi í grunnskólum, nýtt einkunnakerfi, samræmd könnunarpróf og þjóðarsáttmála um læsi.

Menntamálastofnun

Menntamálastofnun hefur yfirumsjón með þjóðarsáttmála um læsi og þar hefur tekið til starfa læsisteymi sem vinnur að innleiðingu aðgerða til eflingar læsis. Stofnunin veitir sveitarfélögum stuðning og ráðgjöf við að ná markmiðum sínum. Lögð er áhersla á læsi á öllum skólastigum en horft er á nám og kennslu nemenda sem samfellu frá 2-16 ára. Læsisráðgjafar styðja skóla til stöðugra umbóta með því að miðla fræðslu um bestu leiðir til eflingar læsis. Menntamálastofnun lætur skólum í té viðeigandi skimunarpróf og aðstoðar kennara í sveitarfélaginu við að greina niðurstöður mælinga og ákveða aðgerðir í kjölfarið. Skólarnir velja síðan hvaða leiðir eru farnar að markmiðum. Menntamálastofnun efnir til árlegrar námsstefnu um læsi.

Sveitarfélögin

Sveitarfélögin setja sér hvert og eitt markvissa læsisstefnu í samræmi við ákvæði í aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Ákveðin eru lágmarksviðmið um lestrarhraða, lesskilning, orðaforða og ritfærni í samræmi við aðalnámskrá. Sveitarfélögin mæla reglulega leshraða, lesskilning, hljóðkerfisvitund og málþroska og nýta niðurstöður þeirra mælinga og samræmdra könnunarprófa á markvissan hátt. Beitt er snemmtækri íhlutun í leik- og grunnskólum og bregðast skal jafnóðum við vísbendingum um lestrarvanda. Nýta skal markvisst sérfræðiþjónustu sveitarfélaga til ráðgjafar, greiningar og eftirfylgni og veita nemendum af erlendum uppruna sérstakan stuðning með það að markmiði að þeir nái virku tvítyngi og sömu viðmiðum í læsi og aðrir nemendur. Einnig hafa sveitarfélög með undirritun þjóðarsáttmála  skuldbundið sig til að leggja áherslu á samvinnu við foreldrafélög til að ná markmiðum samningsins

Heimili og skóli – landssamtök foreldra

Fulltrúar Heimilis og skóla eru aðilar að þjóðarsáttmála fyrir hönd foreldra en mikilvægt er að við tökum öll höndum saman til að efla læsi barna í landinu. Samtökin gerðu samning við mennta- og menningarmálaráðuneyti í janúar 2016 um að útbúa Læsissáttmála fyrir foreldra. Meginmarkmið samkomulags ráðuneytisins og Heimilis og skóla eru að:

  • Stuðla að aukinni lestrarfærni barna og unglinga með þátttöku og stuðningi foreldra við framkvæmd þjóðarsáttmála um læsi.
  • Útbúa Læsissáttmála fyrir foreldra og kennara og innleiða hann í skóla landsins.
  • Auka vitund foreldra um ábyrgð þeirra gagnvart læsi barna sinna.
  • Virkja foreldra í að styðja við læsi og lestrarþjálfun barna sinna.
  • Auka samstarf skóla og foreldra um læsisnám barna.

Við undirbúning Læsissáttmála var settur saman rýnihópur fagfólks sem kom m.a. frá Kennarasambandi Íslands, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, menntasviði Reykjavíkurborgar, Menntamálastofnun o.fl. sem unnu að gerð sáttmálans ásamt fulltrúum Heimilis og skóla. Einnig var hann sendur víðar til yfirlestrar.

Við getum náð árangri saman
Með innleiðingu Læsissáttmála er höfðað til samtakamáttar og samábyrgðar foreldra. Sáttmálanum svipar til Foreldrasáttmála Heimilis og skóla sem notið hefur mikilla vinsælda. Læsissáttmálinn inniheldur sex atriði um lestur og læsi sem rædd eru á fundi bekkjarforeldra með umsjónarkennara. Á fundinum er efni sáttmálans rætt og ítarefni dreift til foreldra þar sem farið er nánar í hvert atriði sáttmálans. Þegar umræður hafa farið fram og foreldrar borið saman bækur sínar um hvað þeim finnst mikilvægt í þessu samhengi er sáttmálinn undirritaður og hengdur upp, yfirleitt í skólastofu barnanna. Þannig eru umræðurnar rammaðar inn á táknrænan hátt og sýnilegar nemendum. Markmiðið með sáttmálanum er að hann verði notaður reglulega um land allt sem liður í að efla læsi barna á Íslandi og einnig að hann stuðli að því að styrkja samstarf heimila og skóla í landinu.