Haustið 2015 stóð Samanhópurinn fyrir könnun meðal foreldra ólögráða nemenda í framhaldsskólum varðandi samverustundir og viðhorf til áhættuhegðunar ungmenna. Niðurstöður fyrir einstaka skóla ásamt heildarskýrslunni hafa verið sendar skólunum sem tóku þátt. Helstu niðurstöður könnunarinnar má finna í samantekt hér að neðan og jafnframt er hægt að nálgast skýrsluna í heild sinni hér.

samanlogo

Áherslur SAMAN-hópsins í ljósi niðurstaðna könnunarinnar:

 • Samvera barna og foreldra er besta forvörnin/GAMAN SAMAN/Söfnum góðum minningum saman/fjölskyldan saman á tímamótum/samvera er besta jólagjöfin/samvera skapar góð tengsl/saman í sólinni: Samverustundir foreldra og ungmenna hafa mikið forvarnagildi varðandi áhættuhegðun ungmenna. Algengustu samverustundir foreldra og ungmenna voru sameiginlegur kvöldverður (92% flesta eða alla daga vikunnar) og spjall um allt og ekkert (49% alla daga vikunnar) en næst á eftir komu sjónvarpsáhorf (65% vikulega eða oftar) og bíltúrar (80% vikulega eða oftar).
 • Elskum óhikað! Þrír af hverjum fjórum foreldrum töldu sig eiga mjög auðvelt með að sýna ungmenni sínu umhyggju og hlýju og 56% foreldra töldu sig eiga mjög auðvelt með að tala um persónuleg málefni við ungmenni sitt. Konur töldu sig þó eiga auðveldara bæði með að sýna hlýju og tala um persónuleg málefni samanborið við karla
 • Veist þú hvar barnið þitt er í kvöld? Fleiri konur en karlar sögðust þekkja flesta eða alla vini/vinkonur unglinganna sinna (94% á móti 87%) og konur voru einnig líklegri en karlar til að þekkja alla eða flesta foreldra vina unglingsins (67% á móti 54%). Konur fylgdust jafnframt frekar með því hvar og með hverjum ungmenni þeirra væru á kvöldin og um helgar en karlar og þær sögðust oftar kanna hvort fullorðinn einstaklingur væri á staðnum ef ungmenni þeirra færi í partý.
 • Útivistartími: Flestir foreldrar (82-85%) settu unglingnum sínum reglur um hvað megi gera utan heimilis og sömuleiðis um útivistartíma og nær allir töldu að ungmenni sín fylgdu reglum um útivistartíma sem foreldrar settu þeim.
 • Best er að vera heima þegar gesti ber að garði Eftirlitslaus partý 90% foreldra sögðust aldrei leyfa ungmenni sínu að halda eftirlitslaus partý en helmingur foreldra sögðu að unglingurinn hefði farið í slík partý.
 • Eftirlitslausar útilegur/sumarbústaðaferðir Þrír af hverjum fjórum sögðust ekki leyfa eftirlitslausar sumarbústaðaferðir eða útilegur. Flestir töldu að ungmennin fylgdu vel þessum reglum en þó voru karlar líklegri en konur til að telja að unglingurinn þeirra hefði farið í eftirlitslausar ferðir af einhverju tagi.
 • Hvaða lögbrot finnst þér í lagi að fremja? Kaupa á áfengi fyrir fólk undir lögaldri? Mjög fáir foreldrar sögðust hafa boðið eða keypt áfengi fyrir sitt ungmenni. Þá voru 75% foreldra mjög eða frekar ósammála þeirri fullyrðingu að þeir foreldrar sem kaupa áfengi fyrir ungmenni geti betur fylgst með áfengisneyslu þeirra.
 • Áfengiskaupaaldur Meirihluti foreldra eða 72% taldi að áfengiskaupaaldur ætti að vera 20 ára samkvæmt lögum líkt og hann er, en 24% foreldra fannst að áfengiskaupaaldur ætti að vera 18 ára. Nokkrir nefndu sérstaklega að áfengiskaupaaldur ætti að vera sá sami og lögræðisaldur óháð því hvort sá aldur væri 18 eða 20 ára.
 • Foreldrar verum samtaka! Mikill meirihluti foreldra (92%) voru andvígir áfengisdrykkju ólögráða ungmenna á framhaldsskólaaldri þ.e. yngri en 18 ára. Hins vegar voru færri eða 68% foreldra andvígir áfengisdrykkju ungmenna yngri en 20 ára þannig að viðhorf foreldra virðast breytast að einhverju leyti þegar ungmenni ná 18 ára aldri. Konur höfðu almennt neikvæðari viðhorf gagnvart áfengisneyslu ungmenna.
 • Foreldrar eru fremstir í forvörnum Meirihluti foreldra (75%) voru mjög eða frekar sammála því að foreldraþátttaka í skólastarfi skipti miklu máli varðandi áfengis- og vímuvarnir auk þess sem 87% töldu mikilvægt að foreldraráð skólanna beiti sér í áfengis og vímuvörnum.
 • Foreldrar eru fyrirmyndir Karlar voru almennt hlutfallslega líklegri samanborið við konur til þess að vera með frjálslegra viðhorf gagnvart áfengi og áfengisneyslu.