Gagnlegir tenglar

Foreldravefur Reykjavíkurborgar er upplýsingasíða fyrir foreldra í höfuðborginni en þar er hægt að fá yfirlit yfir dagforeldra eftir hverfum sem og að fá yfirsýn yfir hina fjölmörgu leik- og grunnskóla sem er að finna í borginni. Einnig er hægt að lesa sig til um starfsemi frístudaheimilianna og fá margvíslegan fróðleik sem styður foreldra í uppeldishlutverkinu.

Heilsueflandi grunnskóli er svæði á vef landlæknisembættisins um verkefnið um samnefnt verkefni sem fjölmargir skólar um allt land taka þátt í enda gefur það auga leið að heilbrigðir nemendur eiga betra með að læra en þeir sem sjúkir eru. Hugmyndin um heilsueflandi grunnskóla er byggð á Ottawa-sáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilsueflingu og hefur það að markmiði að bæta námsárangur, efla þekkingu nemenda á heilbrigði og heilsuhegðun og þjálfa nemendur í að finna lausnir á heilsutengdum viðfangsefnum á heimavelli og á heimsvísu.

Nám til framtíðar er kynningarvefur mennta- og menningarmálaráðuneytisins á nýrri aðalnámskrá. Þar má sjá stutt kynningarmyndbönd um útfærslu grunnþátta menntunar á leik- grunn- og framhaldsskólastigi og sækja þemahefti um sama efni. Auk þess má þar nálgast námskrárnar í heild sinni og skoða veggspjöld og kynningarhefti.

Sérkennslutorg er síða í vinnslu að frumkvæði Klettaskóla sem hefur það að markmiði að miðla upplýsingum, efni og aðferðum til þeirra sem sinna kennslu nemenda með sérþarfir. Á torginu má fá hugmyndir að verkefnum í útikennslu, hvernig nýta megi spjaldtölvur og skynörvun svo fátt eitt sé nefnt.