Einelti

Hvað er einelti?

Einelti er ofbeldi sem aldrei er réttlætanlegt. Talað er um einelti þegar einstaklingur verður fyrir endurteknu og langvarandi áreiti og á erfitt með að verjast því. Mikilvægt er að hafa í huga að allir geta orðið fyrir einelti. Birtingarmyndir eineltis geta verið af margvíslegum toga og bæði verið duldar og sýnilegar. Einelti getur falist í félagslegri útskúfun eða einangrun þannig að barn sem verður fyrir henni er ekki fullgildur þátttakandi eða fær ekki að vera með í félagsskap eða í leik, er sjaldan eða aldrei valið í lið og fær jafnvel ekki boð í afmæli. Einelti getur einnig verið beinskeyttara og sýnilegra með baktali og sögusögnum,særandi orðbragði og niðurlægingu, frelsissviptingu, veðmætastuldi, eignatjóni og líkamsmeiðingum. Einnig eru til dæmi þess að þolendur eineltis séu neyddir til þess að geta eitthvað gegn vilja sínum eða í hlutverki hlaupatíkur.

Neteinelti

Neteinelti er ein af þeim hættum sem steðja að börnum og ungmennum í dag. Rannsóknir sýna að á grunnskólaaldri er netnotkun orðin hluti af þeirra daglega lífi. Neteinelti á sér aðallega stað á samfélagsmiðlum og birtingarmyndir þess geta verið margvíslegar. Má þar helst nefna særandi einkaskilaboð, niðrandi ummæli á samfélagsmiðlum, útskúfun, misnotkun á auðkenni fórnarlambs, lygasögur og birtingar á vandræðalegu eða niðrandi myndefni. Þrátt fyrir að ljót samskipti geti átt sér stað nánast hvar sem er á netinu ber að vara sérstaklega við samfélagsmiðlum þar sem notendur geta átt í nafnlausum samskiptum.

Hvaða áhrif hefur einelti?

Einelti veldur þjáningum sem geta fylgt þolandanum ævilangt. Rannsóknir sýna að margir þeirra sem hafa orðið fyrir langvarandi einelti hafa brenglaða sjálfsmynd og lítið sjálfstraust. Þeir eru líklegri en aðrir til að eiga við geðræn vandamál að stríða síðar á lífsleiðinni svo sem  þunglyndi, félagsfælni og kvíða. Stundum verður niðurbrotið algert og eineltið leiðir til sjálfsvígs en bæði íslenskar og erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli eineltis og sjálfsvígshugsana, sjálfsvígstilrauna og sjálfsvíga. Hvaða einkenni sýnir barn sem verður fyrir einelti?

 • Vill ekki lengur fara í skólann.
 • Barnið kvartar oft undan maga- eða höfuðverkjum og er lystarlaust.
 • Sefur illa, fær martraðir og grætur jafnvel í svefni.
 • Barnið er niðurdregið, virðist óhamingjusamt eða er þunglynt.
 • Það fær lélegri einkunnir og áhugi á skólanum dvínar.
 • Barnið kemur heim úr skóla eða tómstundastarfi skítugt, blautt eða í rifnum fötum. Skólabækurnar eru skemmdar og hlutir týnast. Barnið getur ekki gert almennilega grein fyrir því sem gerðist.
 • Það getur ekki gefið trúverðuga skýringu á mari, skeinum og sárum.
 • Barnið er alltaf eitt, bekkjarfélagar/leikfélagar koma ekki lengur heim með barninu.
 • Það hnuplar eða biður um meiri peninga en það er vant (til að blíðka þá sem leggja það í einelti).

Hvað er hægt að gera leiki grunur á einelti?

 • Ræða við barnið og komast að því hvort grunurinn reynist réttur. Oft reyna börn sem eru lögð einelti að leyna því þar sem þau skammast sín og vilja ekki valda foreldrum sínum vonbrigðum eða áhyggjum.
 • Láta umsjónarkennara barnsins tafarlaust vita og hafa samband við skólayfirvöld. Skólinn á að bregðast við og ganga í málið.
 • Leita ráða hjá námsráðgjafa eða sálfræðingi.
 • Leita til fræðsluyfirvalda, svo sem skólaskrifstofu, fræðsluskrifstofu eða sambærilegra aðila standi viðbrögð skóla ekki undir væntingum.
 • Ef ekki næst niðunandi lausn hjá fræðsluyfirvöldum má tilkynna eineltið til Fagráðs um einelti á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
 • Fá upplýsingar og ráð hjá, Heimili og skóla, Erindi eða neteinelti.is gegn einelti.
 • Ef eineltið á sér stað á netinu bjóða flestir samfélagsmiðlar upp á að loka á notendur og tilkynna óviðeigandi notkun og hægt er að senda tilkynningu í gegn um ábendingahnapp Barnaheilla en neteinelti getur varðað við lög, t.d. ef um er að ræða kynferðislegar myndbirtingar af ólögráða börnum.
 • Hafa skal í huga að neteinelti á upptök sín gjarnan innan jafningjahópsins og því mikilvægt að hafa samráð við skólayfirvöld og foreldra skólafélaga í slíkum tilvikum.

Námsefni

Óboðnir gestir – okkar innri maður. Fjallar um tröllabörnin Óþekktarorm, Græðgi, Fýlupúka, Leti og Jötuninn mikla. Öll leggja þau leið sína í mannheima og leitast við að taka völdin í sínar hendur. Ætlunin með sögunum er m.a. að vegja umhugsun og gefa börnum, foreldrum og kennurum tækifæri til að bera kennsl á þessa gesti sem eiga það til að læðast að okkur, jafnvel taka völdin og stjórna okkur um hríð.

Ekki segja frá. Systkinunum Báru og Bessa kemur vel saman og þau búa við góðar aðstæður að flestra áliti, en ekki er allt sem sýnist. Skuggi áfengisvandans hvílir yfir þeim. Aftast í bókinni er bent á aðila sem börn geta leitað til við erfiðar aðstæður í von um að það geti rofið einangrun þeirra.

Léttlestrarbækur um Rut. Í þessum bókum er farið í ýmsa þætti mannlegrar hegðunar og atriði er lúta að virðingu, jákvæðni, umburðarlyndi, tillitssemi og einelti. Sérstaklega er fjallað um einelti í Rut og raddirnar tvær.

Gagnlegar vefslóðir