Hvað er aðalnámskrá?

Aðalnámskrá er rammi utan um allt skólastarf í landinu og er henni ætlað að tryggja börnum og ungmennum góðar aðstæður til náms í samræmi við gildandi lög og menntastefnu. Innan rammans hafa verið skilgreindir sex grunnþættir sem mynda kjarna nýrrar menntastefnu og eru sameiginlegir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þeir varða starfshætti, inntak og umhverfi náms á öllum skólastigum og skapa mikilvæga samfellu í skólakerfinu. Grunnþættirnir eru læsi, sköpun, jafnrétti, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi. Aðalnámskrá mótast af gildandi lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum og er henni ætlað að þjóna mörgum aðilum. Má þar nefna nemendur, kennara, stjórnendur skóla og annað starfsfólk. Aðalnámskrá er einnig upplýsing og viðmiðun fyrir foreldra svo þeir geti fylgst með starfsháttum skólans, árangri skólastarfs og velferð og líðan nemenda. Því er mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um innihald hennar og markmið svo þeir geti stutt sem best við nám barna sinna.

Eins og fram kemur í grunnskólalögum bera foreldrar ábyrgð á uppeldi barna sinna og því að þau sæki skóla. Foreldrar gæta hagsmuna barna sinna og eiga að stuðla að því að þau sæki nám sitt. Einnig ber þeim að fylgjast með námsframvindu bara sinna í samvinnu við þau og kennara þeirra. Í aðalnámskrá segir m.a. að foreldrar eigi að greina skólanum frá atriðum sem geta haft áhrif á námsframvindu, ástundun og hegðun. Foreldrar eiga jafnframt að fá tækifæri til að taka þátt í námi barna sinna sem og í skólastarfi almennt. Í aðalnámskrá segir einnig að foreldrar skuli hafa samráð við skólann um skólagöngu barna sinna.

Sérhver skóli semur sína skólanámskrá. Þar gerir skólinn grein fyrir því hvernig hann nýtir það svigrúm sem lög, reglugerðir, aðalnámskrá og skólastefna viðkomandi sveitarfélaga veitir. Í raun er undir hverjum skóla komið að útfæra aðalnámskrá í sinni heimabyggð.

Á árunum 2013 og 2014 héldu Heimili og skóli kynningarfundi víðs vegar um landið þar sem foreldrum var boðið að koma og fræðast um nýja aðalnámskrá. Samhliða fundunum var fjölbreytt fræðsluefni útbúið sem birtist hér á vefnum auk þess sem við bendum á annað gagnlegt efni. Hér má nálgast glærusýninguna sem stuðst var við á fundunum og hnitmiðaðan fræðslupakka um aðalnámskrá.

fraedslupakki

Grunnþættir menntunar

Þeir grunnþættir sem upp voru taldir hér að ofan eru gildi af siðferðilegum, samfélagslegum og uppeldislegum toga. Með þeim er ekki verið að kynna nýjar námsgreinar til sögunnar heldur viðfangsefni og markmið þvert á allar námsgreinar og námsstig og er það til þess gert að mynda heildarsýn og samfellu í námi. Þannig eiga leikskólabörn og grunn- og framhaldsskólanemar allir að fást við grunnþáttinn sjálfbærni á sínum forsendum svo dæmi sé tekið. Hægt er að nálgast sjálfbærni með því að leggja ríka áherslu á vistkefið og samspil okkar og áhrif á ólíkar lífverur í gegn um útkennslu, í kennslustundum í náttúru- og líffræði, vinna með endurnýtanlegan úrgang og “rusl” í listsköpun og á seinni stigum skólagöngunnar er hægt að skoða sjálfbærni út frá lífsleikni eða jafnvel í sögulegu eða samfélagslegu ljósi: að hvaða leyti er eða hefur íslenskt samfélag verið sjálfbært? Hvaða þýðingu hefur sjálfbærni fyrir einstaklinginn og hvernig er hægt að stuðla að henni í almennum lífsháttum? Hægt er að fá skilmerkilega kynningu á hverjum og einum grunnþætti menntunar á sérstökum kynningarvef mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem hægt er aðskoða stutt kynningarmyndbönd. Fyrir þau sem vilja kafa enn dýpra í þá bendum við á þemahefti um grunnþætti í menntun.

Ný og fjölbreytt vinnubrögð

Til þess að grunnþættir menntunar verði áþreyfanlegir í skólastarfi þurfa kennsluhættir skólans að þróast í takt og taka mið af þeirri miklu áherslu sem námskráin leggur á leitandi og gagnrýnið hugarfar, sjálfstæð vinnubrögð og sköpun. Í þessu samhengi er vert að beina sjónum okkar sérstaklega að grunnþáttunum læsi, sköpun og lýðræði og mannréttindi sem allir tengjast nánum böndum og þarfnast fjölbreyttra kennsluhátta og skólastarfs sem brýtur upp hið hefðbundna kennsluform þar sem kennari miðlar þekkingu sinni til frekar óvirkra nemanda.

Þá er ekki úr vegi að spyrja sig hvort skólastarf á Íslandi ýti undir skapandi og gagnrýna hugsun nemenda og hvetji þá til að sýna frumkvæði.
Er skólastarf á Íslandi lýðræðislegt?

Ef svarið er eitthvað á þá vegu að skólastarfi hætti til að vera einsleitt og einstefnumiðað verðum við að spyra okkur hvernig hægt sé að gera betur og hvaða tækifæri nýja námskráin hafi upp á að bjóða. Aðalnámskrá hvetur skóla til að beita skapandi nálgun í allri kennslu, ýta undir forvitni og tilraunir og leyfa nemendum að fara ótroðnar leiðir í verkefna vinnu, hafa verkefni hæfilega opin og leyfa val um leiðir við úrvinnslu, ýta undir gagnrýnið hugarfar með uppbyggilegum efa, snúa hugmyndum á haus, byggja brýr milli ólíkra sviða og freista þess þannig að uppgötva óþekkt tengsl. Kennarar þurfa að búa svo um hnútana að nemendur séu ekki óvirkir viðtakendur upplýsinga heldur geri þeir sitt besta til að greina þær á gagnrýninn hátt og vera tilbúnir að leyfa nemendum að ráða ferðinni í auknum mæli og læra með þeim – spyrja spurninga saman, leita nýrra möguleika, rannsaka og rökstyðja.
gagnrynin-hugsun

“Ég ætlast til þess að þið verðið sjálfstæðir, skapandi og gagnrýnir hugsuðir sem gerið nákvæmlega eins og ég segi.”

Til þess að virkja gagnrýna, sjálfstæða og siðferðilega hugsun barna þarf kennarinn að geta stigið út fyrir hefðbundið miðlunarhlutverk sitt og forðast einræðu með því til dæmis að leita í hugmyndafræði og aðferðir heimspekilegrar samræðu með börnum. Það felst meðal annars í því að taka vel á móti hugleiðingum barna en veita þeim aðhald um leið, ýta undir gagnrýna en yfirvegaða samræðu þeirra í milli sem einkennist af forvitni og virðingu og hlúa að virkni og ábyrðgartilfinningu meðal þeirra.

Hæfni

Nýja námskráin leggur áherslu á alhliða þorska nemandans og að skólakerfið leggi sitt af mörkum til þess að skapa nýta þjóðfélagsþegna og senda þá með ákveðna hæfni í farteskinu út í lífið. Hæfnihugtakið eins og það er notað í námskránni nær ekki aðeins utan um þekkingu á ákveðnu sviði og leikni við að beita henni heldur er það samofið siðferðilegum gildum nemanda og gagnrýninni hugsun. Ef að við leiðum hugann að því hvaða kosti læknir þarf að bera til þess að geta talist hæfur í starfi. Læknirinn þarf að búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu á sínu sviði og mikilli leikni í þeim aðgerðum sem hann tekur sér fyrir hendur en færni hans þarf auk þess að vera umvafin gildum og mannkostum eins og ábyrgðartilfiiningu, þjónustulund og manngæska svo dæmi séu tekin. Hæfni er metin innan hinna hefðbundnu námsgreina eins og íslensku og stærðfræði og eru hæfniviðmið að finna í greinanámskrá aðalnámskrár. Einnig verður metin svokölluð lykilhæfni þvert á námsgreinar: tjáning og miðlun,skapandi og gagnrýnin hugsun, sjálfstæði og samvinna, nýting miðla og upplýsinga, ábyrgð og mat á eigin námi. Hæfniviðmið lykilhæfninnar sjá má á þessu lykilhæfni veggspjaldi. Af þessu viðmiðum má sjá að hæfnihugsun í námi kallar á fjölbreyttara námsmat frá því sem ríkjandi hefur verið fram að þessu.

 

Nýtt námsmat

Námsmat í grunnskóla breytist einnig í takt við hæfniviðmiðin og færist úr því að vera á skalanum 0 – 10 eins og tíðkast hefur yfir í einkunnir gefnar í bókstöfunum A, B, C og D. A lýsir framúrskarandi hæfni, B lýsir góðri hæfni, C lýsir sæmilegri hæfni og D nær ekki viðmiðum sem sett eru fram í C og gerir skólinn þá sérstaka grein fyrir hæfni viðkomandi nemanda. Nýja einkunnakerfið inniheldur einnig B+ og C+ sem getur nýst þegar nemendur hafa náð að hluta þeim viðmiðum sem lýst er í aðalnámskránni. Engin matsviðmið eru til fyrir þessa viðbót heldur gildir það að sá sem hefur náð meginþorra B matsviðmiða og náð einstökum þáttum í A getur fengið B+ og sá sem hefur náð meginþorra C matsviðmiða og einstökum þáttum í B getur fengið C +.

Til að varpa ljósi á nýja matskerfið er ágætt að hafa eftirfarandi dæmi til hliðsjónar:

Dæmi um matsviðmið í samfélagsgreinum

A Nemandi getur sýnt fram á mjög góðan skilning á eðli sjálfbærrar þróunar og þýðingu hennar fyrir umhverfi, samfélag og efnahagslíf. Á skipulegan, sjálfstæðan og gagnrýninn hátt aflað…

B Nemandi getur sýnt fram á skilning á eðli sjálfbærrar þróunar og þýðingu hennar fyrir umhverfi, samfélag og efnahagslíf. Á skipulegan og sjálfstæðan hátt…

C Nemandi getur sýnt fram á sæmilegan skilning á eðli sjálfbærrar þróunar og þýðingu hennar fyrir umhverfi, samfélag og efnahagslíf. Að vissu marki aflað sér…

D er notaður þegar nemandi uppfyllir ekki kröfur sem gerðar eru í C, skóli gerir þá sérstaklega grein fyrir hæfni viðkomandi nemanda.

Dæmi um matsviðmið í íþróttum

A Nemandi getur framkvæmt mjög vel allar sundaðferðir og hefur mjög gott þol í sundi og hlaupi. Sýnt mjög góðan styrk og stöðugleika í mismunandi vöðvahópum og mjög góða samhæfingu liðleika, leikni og úthald í æfingum. Skýrt af öryggi og góðum skilningi leikreglur í hópíþrótt…

B Nemandi getur framkvæmt vel allar sundaðferðir og hefur gott þol í sundi og hlaupi. Sýnt góðan styrk og stöðugleika í mismunandi vöðvahópum og góða samhæfingu liðleika,leikni og úthald í æfingum. Skýrt af góðum skilningi leikreglur í hópíþrótt…

C Nemandi getur framkvæmt nokkuð vel allar sundaðferðir og hefur nokkuð gott þol í sundi og hlaupi. Sýnt sæmilegan styrk og stöðugleika í mismunandi vöðvahópum og nokkuð góða samhæfingu, liðleika, leikni og úthald í æfingum. Skýrt helstu leikreglur í hópíþrótt…

Sumir hafa lýst áhyggjum sínum yfir því að nýja námsmatskerfið sé of ónákvæmt, loðið og huglægt en það á að vera áreiðanlegt, óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt og nemendur og foreldrar þurfa að geta skilið hvað liggur að baki; bókstafirnir lýsa hversu vel nemandi hefur skilgreinda hæfni á valdi sínu. Gert er ráð fyrir að nýtt námsmat taki gildi vorið 2015

Tengsl við nám á framhaldsskólastigi

Nýja námsmatið tengist námi á framhaldsskólastigi með beinum hætti þar sem því er skipað á fjögur hæfniþrep sem lýsa stigvaxandi kröfu um þekkingu, hæfni og leikni og skarast á við grunn- og háksólastigin. Við innritun í framhaldsskólann hefja nemendur nám á fyrsta eða öðru stigi eftir því hvaða hæfni þeir hafa náð í grunnskólanum. Þannig getur nemandi sem náð hefur góðum árangri stærðfræði hafið nám í þeirri grein á öðru þrepi en byrjað á því fyrsta í nýrri grein (t.d. þriðja mál) eða grein þar sem árangurinn var slakari. Þrepakerfinu er ætlað að vega upp á móti námsleiða og brottfalli með því að tryggja að nemendur hefur framhaldsskólagöngu sína á erfiðleikastigi sem hentar þeim auk þess sem nemendur geta lokið námi sínu á hverju þrepi og att þar með auðveldara með að taka upp þráðinn seinna. Þrepakerfinu er enn fremur ætlað að gera íslenska nemendur samkeppnishæfari í Evrópu þar sem hinn íslenski hæfnirammi náms á grunn-, framhalds- og háskólastigi er samanburðarhæfur við evrópska hæfnirammann, eins og sjá má á þessu veggspjaldi.