Að fræða eða hræða?

Atriði til að hafa í huga þegar börn eru frædd um hættur í umhverfinu

 • Fjölbreytt og hreinskilin fræðsla er góð forvörn.
 • Gefum okkur góðan tíma til umræðna.
 • Látum fræðsluna fara fram í notalegu umhverfi.
 • Áður en rætt er við barnið er nauðsynlegt að vera búin að fara yfir hvað við ætlum að tala um og hvernig við munum bregðast við mismunandi spurningum og aðstæðum. Undirbúningur skiptir máli.
 • Gott getur verið að ræða við aðra foreldra, námsráðgjafa, sálfræðinga, kennara, félagasamtök og aðra aðila sem þekkingu hafa á þessum málum um hvaða grunnhugtök og áherslur séu notuð og hvernig sé best að fræða börn um hættur í umhverfinu.
 • Skólayfirvöld og foreldrafélög geta haft frumkvæði að því að kalla saman foreldra til að fara yfir grunnatriði fræðslunnar eins og hugtök, áherslur og lesefni. Mikilvægt er að það sé gert í samráði við foreldra.
 • Sýnum yfirvegun og ræðum málin í rólegheitum.
 • Ræðum á hreinskilinn hátt um þær hættur sem falist geta í samskiptum við ókunnuga. Ekki vera með neina feimni eða tepruskap en gætum samt orða okkar.
 • Spjöllum um hætturnar frá ýmsum hliðum og tökum dæmi.
 • Gott getur verið að fara í lítinn leikþátt til að æfa viðbrögð í tilteknum aðstæðum. Til dæmis mætti setja á svið aðstæður þar sem ókunnugur aðili (sem foreldrið eða annar leikur) býður barni gjafir, sælgæti eða segir því að foreldri hafi slasast eða reynir aðrar leiðir til að tæla barnið til sín. Þá er fyrst kannað hvernig barnið myndi bregðast við og því síðan leiðbeint ljúflega í gegnum aðstæður.
 • Höfðið til skynseminnar og útskýrið praktíska hluti eins og t.d.:
  • Ef eitthvað kemur fyrir og mamma og pabbi geta ekki sótt barnið í skólann þá myndi einhver úr skólanum ræða við barnið.
  • Ef lögreglumaður kemur með skilaboð þá væri hann í búningi, líklega á lögreglubíl og lögreglumenn eru oftast tveir saman.
  • Ekki er eðilegt að ókunnugir, fullorðnir einstaklingar sæki í að leika við börn og gefa þeim gjafir af engu tilefni.
  • Ef einhver ókunnugur reynir að fá mann í bíl með því að segja skrýtna sögu eða bjóða gjafir þá er það grunsamlegt og barnið skyldi forða sér.
  • Ef einhver ókunnugur kemur með hræðilegar fréttir t.d. um að einhver nákominn hafi slasast o.s.frv. þá er líklegt að hann sé að segja ósatt og reyna að plata mann með sér.
  • Ef þið sjáið ókunnuga reyna að gabba önnur börn þá eigið þið að láta einhvern fullorðinn sem þið treystið vita.
 • Útskýrið fyrir börnum hverjir séu ókunnugir.
 • Útskýrið fyrir börnum hverjir einkastaðirnir eru og að allir einkastaðaleikir séu bannaðir. Enginn má snerta þeirra einkastaði og þau mega alltaf segja nei ef þeim þykir eitthvað óþægilegt. Hægt er styðjast við fræðsluefni á borð við bókina Einkastaðir líkamans og teiknimyndina Leyndarmálið.
 • Farið yfir hvernig snerting er í lagi og viðeigandi og hvernig snerting er ekki í lagi, óviðeigandi og jafnvel ólögleg eða skaðleg. Skoðið hvernig greina má mun á réttu og viðeigandi atferli og röngu og óviðeigandi atferli.
 • Ef einhver vill gera eitthvað óþægilegt sem barnið veit að er skrýtið og jafnvel slæmt þá á alltaf að fara burt og segja frá.
 • Brýnið fyrir börnum á yfirvegaðan hátt að þau skuli aldrei setjast í bíla eða fara burt með ókunnugum og útskýrið af hverju.
 • Útskýrið fyrir börnum að þau hafi ávallt rétt á að segja nei.
 • Brýnið fyrir börnum að forða sér úr óþægilegum aðstæðum og að segja einhverjum sem þau treysta frá því ef slíkt kemur upp.
 • Farið yfir hvernig aðstæður geta verið ógnandi og hvenær á að forða sér.
 • Leyndarmál sem láta manni líða illa eru vond leyndarmál en leyndarmál eiga að vera skemmtileg. Maður á ekki að eiga vond leyndarmál.
 • Ef börn segja frá einhverju misjöfnu þá á að láta barnið vita að það hafi verið rétt að segja frá og tilkynna málið til viðeigandi aðila.
 • Hlustum af athygli og bregðumst við af yfirvegun.
 • Varist yfirheyrslur, ræðið við barnið á afslappaðan hátt og munið að hlusta. Best er að fræðslan fari fram í gegnum samræður og leik þar sem báðir aðilar eru þátttakendur.
 • Að sjálfsögðu þarf svo alltaf að taka mið af barninu, einstaklingnum, og þar eru foreldrar lykilaðilar.