Foreldraverðlaun

Markmið Foreldraverðlauna Heimilis og skóla er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fer fram innan leik-, grunn og framhaldsskóla, og þeim mörgu verkefnum sem stuðla að öflugu og jákvæðu samstarfi heimila, skóla og samfélagsins.

Foreldraverðlaun eru veitt til eins verkefnis/viðfangsefnis. Einnig eru veitt einstaklingsverðlaun. Dugnaðarforkurinn er einstaklingur sem hefur unnið að eflingu samstarfs heimilis og skóla af mikilli alúð og óeigingirni. Ef dómnefnd hefur þótt ástæða til, hafa jafnframt verið veitt sérstök hvatningarverðlaun.

Heimili og skóli – landssamtök foreldra standa fyrir Foreldraverðlaunum en samtökin sjálf, stjórn eða  starfsfólk  tilnefna ekki verkefni, heldur vinnur dómnefnd úr innsendum tilnefningum. Niðurstöður dómnefndar byggjast á greinargerðum og rökstuðningi þeirra aðila sem tilnefndu.

Tilnefning fer fram á rafrænu eyðublaði á vefsvæði Heimilis og skóla og þar er jafnframt að finna leiðbeiningar um tilnefninguna. Einnig er hægt fá upplýsingar hjá skrifstofu samtakanna í síma 516-0100.

Vakin er athygli á að verðlaun eru aðeins veitt til verkefnis/viðfangsefnis sem tilnefnt hefur verið með formlegum hætti  á rafrænu eyðublaði á vefsvæði landssamtakanna.

Foreldraverðlaunin 2021

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2021 hlaut Stóra upplestrarkeppnin. Ingibjörg Einarsdóttir var útnefnd Dugnaðarforkur Heimilis og skóla. Hvatningarverðlaunin hlutu Söngleikurinn Annie frá Víðistaðaskóla og verkefnið Sjálfbærni og minni matarsóun hjá heilsuleikskólanum Urðarhóli.

Foreldraverðlaunin 2020

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2020 hlaut verkefnið Smiðjur í Djúpavogsskóla og nytjamarkaðurinn Nótó. Dugnaðarforkur var Ragnheiður Davíðsdóttir og verkefnið Bókabrölt í Breiðholti fékk hvatningarverðlaun.

Foreldraverðlaunin 2019

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2019 hlaut verkefnið Hjólakraftur í Norðlingaskóla fyrir 1.-10. bekk en dugnaðarforkur Heimilis og skóla árið 2019 var Jolanta Krystyna Brandt. Hvatningarverðlaunin hlutu Lestrarvinir í Víðistaðaskóla og Þollóween bæjarhátíð í Þorlákshöfn. Nánari upplýsingar um verkefnin sem tilnefnd voru og viðburðinn má finna í bæklingi Foreldraverðlaunanna 2019.

Foreldraverðlaunin 2018

Foreldraverðlaunin 2017

Skíðaskóli Þelamerkurskóla hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2017. 

Skíðaskóli Þelamerkurskóla býður öllum nemendum í 1.-4. bekk upp á skíðakennslu í tengslum við útivistardag skólans sem haldinn er í Hlíðarfjalli á Akureyri og er í 15 mínútna fjarlægð frá skólanum. Verkefninu var ýtt úr vör fyrir um þremur árum og undirstrikar mikilvægi góðrar samvinnu milli skóla og foreldra en verkefnið hefur það að markmiði að gera útivistardag skólans að degi þar sem allir geti rennt sér með bros á vör og gleði í hjarta eins og segir í tilnefningu. Það er mat dómnefndar að verkefnið gefi nemendum gott tækifæri til að kynnast bæði skíðaíþróttinni sem slíkri og nýta sér það sem nærsamfélagið hefur upp á að bjóða til útivistar. Auk þess veitir verkefnið öllum nemendum tækifæri til að öðlast aukna færni og öryggi í íþróttinni.

Í umsögn dómnefndar segir að foreldrar, kennarar, nemendur og starfsfólk Þelamerkurskóla eigi hrós skilið fyrir vel útfært verkefni og gott samstarf skóla og foreldra í tengslum við útivistardag skólans. Verkefnið muni vonandi stuðla að aukinni útivist og samveru en það er von dómnefndar að þetta verkefni geti verið öðrum til eftirbreytni og gefið nemendum jákvæða mynd af bæði útivist og hreyfingu í þeirra nærsamfélagi og hvatt þannig foreldra og börn til aukinnar samveru.

Dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2017 var Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir.

Í umsögn dómnefndir segir að Ásta Laufey sé góð fyrirmynd sem með þátttöku sinni í foreldrastarfi í gegnum árin sem almennt foreldri, bekkjarfulltrúi og formaður foreldrafélags hafi snemma áttað sig á mikilvægi góðs foreldrasamstarfs hvort sem er í leik- eða grunnskóla og hverju það getur áorkað. Hún býr yfir frumkvæði, er drífandi og hvetur foreldra til þátttöku með gleði, uppátækjum og umhyggju. Ásta hefur auk foreldrastarfs í skólum barna sinna sinnt foreldrastarfi í tómstundum barnanna, íþróttafélagi og tónlistarskóla.

Veitt voru tvenn Hvatningarverðlaun 2017.

Dómnefnd ákvað að velja tvö verkefni og veita þeim Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla árið 2017.

Annað þessara verkefna er samstarf foreldrafélaga í Breiðholti. Verkefnið hefur verið starfrækt frá árinu 2015 og undirstrikar það mikilvæga og góða starf sem felst í öflugu og góðu samstarfi milli foreldrafélaga innan ákveðins svæðis og það forvarnargildi sem í slíku samstarfi liggur. Í tilnefningu segir meðal annars: Í eins stóru hverfi og Breiðholtið er, skiptir miklu máli að foreldrar vinni saman og hefur þessi samvinna foreldrafélaganna ótvírætt jákvæð áhrif á samfélagið. Það er mat dómnefndar að foreldrafélög grunnskólanna í Breiðholti, sem samanstanda af fimm grunnskólum: Breiðholtsskóla, Fellaskóla, Hólabrekkuskóla, Seljaskóla og Ölduselsskóla, séu vel að þessari tilnefningu komin. Hér er um mikilvægt samstarf að ræða sem felur í sér forvarnargildi og jákvæð áhrif á nærsamfélag með hagsmuni foreldra, nemenda, skóla og samfélags að leiðarljósi.

Hitt verkefnið sem hlýtur Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla 2017 er Fróðir foreldrar, samstarf um foreldrafræðslu, og fór það af stað á síðasta ári. Verkefnið er gott dæmi um fyrirmyndarsamstarf sem farið hefur af stað af miklum krafti

og komið inn á viðfangsefni er snúa að því sem hæst ber hverju sinni. Um er að ræða foreldrafræðslu sem byggð er á óskum og hugmyndum ungmenna og foreldra í hverfum Miðborgar, Hlíða og Vesturbæjar og hefur verið mjög vel sótt. Fræðslunni hefur jafnframt verið streymt á netinu sem gefur öllum áhugasömum tækifæri á að fylgjast með. Í tilnefningu segir að verkefnið hafi það að markmiði að virkja rödd foreldra og samtakamátt þeirra sem mikilvægan þátt í forvörnum er kemur að uppeldi barna. Það er samstarfshópur foreldra, ungmenna, frístundamiðstöðva, þjónustumiðstöðvar og íþróttafélaga í Miðborg, Hlíðum og Vesturbæ sem stendur að verkefninu Fróðir foreldrar og lætur sig uppeldi, forvarnir og fræðslu varða.

Foreldraverðlaunin 2016

Móðurmál, samtök um tvítyngi, hlutu Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2016 fyrir móðurmálskennslu. Samtökin voru formlega stofnuð árið 2001, en hafa boðið upp á móðurmálskennslu frá árinu 1994. Meginmarkmið samtakanna er að gefa börnum tækifæri til að læra og viðhalda eigin móðurmáli og koma fræðslu til foreldra, skóla og almennings. Innan raða samtakanna starfar fjöldi einstaklinga sem eru tilbúnir að leggja á sig ómælda sjálfboðavinnu til að halda úti tungumálakennslu fyrir börn sín og annarra. Móðurmálskennslan hefur farið fram í Reykjavík og í vetur hafa samtökin einnig skipulagt móðurmálskennslu á Suðurnesjum. „Það verður ómetanlegt fyrir lítið málsamfélag eins og Ísland að hér muni vaxi upp kynslóð ungs fólks sem kann mörg tungumál, ungt fólk sem á mörg móðurmál“, segir í tilnefningunni.

Hvatningarverðlaun 2016 hlaut foreldrafélag leikskólans Lautar í Grindavík.Foreldrafélagið hefur það að markmiði að efla aðkomu foreldra að starfi leikskólans og hefur verið með eindæmum hugmyndaríkt og drífandi og komið ótrúlegustu hugmyndum í framkvæmd. „Fyrir tilstuðlan foreldrafélagsins hafa m.a. hjúkrunarfræðinemar komið og sett upp Bangsaspítala á Bangsadeginum, öll börn hafa fengið tannbursta og tannkrem í Tannverndarvikunni, boðið var upp á listasýningu og staðið var fyrir uppákomu á 112 deginum,“ kemur fram í tilnefningunni.

Foreldraverðlaunin 2015

Gleðileikarnir í Borgarnesi hljóta Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2015

Gleðileikarnir eru þrautaleikur þar sem nemendum á elsta stigi Grunnskóla Borgarness er skipt niður í hópa sem þurfa að leysa krefjandi verkefni sem ekki eru hluti af þeirra daglega skólalífi. Sjálfstæði og samvinna eru einkunnarorð leikanna og miðast að því að efla samheldni og samstöðu í samfélaginu sem og að gefa þátttakendum tækifæri til þess að spreyta sig á skemmtilegum þrautum. Allir þátttakendur fara heim af leikunum með jákvæð og falleg skilaboð í farteskinu og nýja sýn á eigin styrk og getu. Verkefnið er vel heppnað og vekur athygli í samfélaginu, eflir samstarf heimilis og skóla og virkjar foreldra í starfi með nemendum og fær þá til þess að kynnast innbyrðis og öðrum nemendum skólans.

Hvatningarverðlaun 2015 hljóta nemendur og foreldrar Austurbæjarskóla fyrir Spennistöðina

Um er að ræða menningar- og félagsmiðstöð við Austurbæjarskóla, hugmyndin kom frá nemendum og foreldrum að nýta húsnæði á lóð Austurbæjarskóla og hafa þar fjölnota hús. Nú, tæpum tveimur árum seinna, er hugmyndin orðin að veruleika og er húsnæðið nýtt undir kennslu fyrripart dags og félagsmiðstöð seinnipartinn og á kvöldin. Aðra tíma er húsnæðið laust til notkunar fyrir íbúa og félagasamtök til þess að efla menningarstarfsemi í miðborg Reykjavíkur.

Sigríður Björk Einarsdóttir er dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2015

Sigríður er formaður foreldrafélags Hólabrekkuskóla í Breiðholti og hefur sinnt því embætti síðustu fjögur skólaár með miklum sóma. Hún hefur m.a. unnið að því að efla samstarf foreldra innan skólans og stuðlað að samstarfsverkefnum nemenda á öllum skólastigum. Einnig hefur hún beitt sér fyrir bættu námsumhverfi barna með sérþarfir. „Það má ljóst vera að Sigríður Björk Einarsdóttir, er dugnaðarforkur. Hennar nálgun á skólastarfi einkennist af brennandi áhuga, dugnaði og eljusemi og hefur hún einstakt lag á því að fá fólk með sér til starfa og skapa jákvætt viðhorf til skólans“ segir í tilnefningu. Sigríður var því miður stödd erlendis að sinna doktorsnámi sínu en eiginmaður hennar, Sveinn G. Gunnarsson, tók við verðlaununum í hennar stað.

Foreldraverðlaunin 2014

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla voru afhent í 19. sinn fimmtudaginn 8. maí 2014. Mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, ávarpaði samkomuna og afhenti verðlaunin. Ráðherra hvatti Heimili og skóla í ávarpi sínu til þess að vinna áfram að því að auka virkni foreldra á öllum skólastigum. „Með því að virkja foreldra er hægt að leysa úr læðingi afl sem stuðlar að enn betri menntun og velferð – og um leið að betra og jákvæðara samfélagi,“ sagði Illugi. Alls bárust 36 tilnefningar til verðlaunanna og fékk dómnefnd undir forystu Gísla H. Guðlaugssonar það verðuga verkefni að fara yfir þær og velja vinningshafa.

Viskubrunnur hlaut Foreldraverðlaunin
Verkefnið Viskubrunnur er unnið á Seyðisfirði og er spurningakeppni þar sem foreldrar, starfsfólk og nemendur Seyðisfjarðarskóla sameina krafta sína við undirbúning og safna í leiðinni fyrir skólaferðalagi 9. og 10. bekkjar skólans til Danmerkur. Verkefnið eflir tengsl skólastarfsins við nærsamfélagið og er leið til þess að gera nemendur virkari þátttakendur í samfélaginu og almennu félagsstarfi. „Dómnefndin var sammála um að þetta verkefni væri merkilegt að því leyti að krafist er samvinnu allra bæjarbúa til að verkefnið heppnist vel. Óhætt er að segja að vel hafi til tekist því verkefnið hefur staðið yfir í 14 ár og er einn af þessum föstu punktum í tilveru íbúa. Tengsl heimilis og skóla og nærsamfélags eru sterk í þessu verkefni og frábær upplyfting í svartasta skammdeginu. Við hrifumst af þessum mikla samtakamætti og allt er þetta gert fyrir börnin,“ segir Gísli H. Guðlaugsson.

Hvatningarverðlaunin til Dalvíkur
Verkefnið Söguskjóður, samstarfsverkefni fræðslu- og menningarsviðs Dalvíkurbyggðar og leikskólanna Káta- og Krílakots, hlaut Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla 2014. Markmiðið með verkefninu er að fá foreldra (ekki síst af erlendum uppruna) inn í starf skólanna og búa til málörvandi námsefni. „Verkefnið er vel útfært og snertir alla fleti samstarfs milli heimila og skóla og er greinilega komið til að vera,” segir í niðurstöðum dómnefndar.

Helga Margrét Guðmundsdóttir dugnaðarforkur Heimilis og skóla
Helga Margrét Guðmundsdóttir hlaut viðurkenninguna fyrir eflingu foreldrastarfs og borgaravitundar. Hún á stóran þátt í þeirri vitundarvakningu og eflingu foreldrasamstarfs sem hefur átt sér stað á síðustu árum um allt land. „Fáir hafa lagt jafn mikið af mörkum í þennan málaflokk og barist fyrir honum af krafti og elju eins og Helga Margrét hefur gert,” kom fram í tilnefningu.
Heimili og skóli þakka styrktaraðilum, starfsfólki Þjóðmenningarhúss, dómnefnd og öðrum er komu að verðlaununum fyrir stuðninginn og vel unnin störf.

Foreldraverðlaunin 2013

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent í 18. sinn miðvikudaginn 15. maí við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir afhenti verðlaunin.

Sveitadagar að vori í Varmahlíðarskóla hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2013

Markmiðið með verkefninu er að nemendur kynnist störfum i sveit og læri þannig að þekkja mikilvægi landbúnaðar í heimahéraði. „Verkefnið tekur vel á tengslum grunnskólans við nærsamfélagið og með því nær skólinn að tileinka sér tengsl og þekkingu á sinni heimabyggð sem eru eitt af einkennum skólastarfsins. Verkefnið sýnir þá hugvitsemi og elju sem foreldrar og starfsfólk skólans hafa og með því færa þau aukna þekkningu til nemenda skólans á umhverfi sínu“ að sögn Brians D. Marshall, formanns dómnefndar.
Hvatningarverðlaun 2013 hlaut Barnabær – verkefni sem starfrækt er á Stokkseyri og Eyrarbakka og er samstarfsverkefni Barnaskólans, foreldra og aðila úr nærsamfélaginu á þessum tveimur stöðum. Markmiðið með verkefninu er að upplýsa nemendur um það hvernig hagkerfið virkar. „Verkefnið er vel útfært og gert spennandi fyrir ungmenni og gerir þau færari að takast á við hugtök framtíðarinnar i efnahagsmálum sem vonandi skilar sér í hagsæld þeim til handa í framtíðinni,“ segir Brian.

Sérstaka viðurkenningu fengu SAMFOK – Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík. Samtökin eiga 30 ára starfsafmæli í ár. Á þessum tíma hafa samtökin beitt sér fyrir auknum áhrifum foreldra á skólastarf og staðið vörð um réttindi barna til menntunnar og þroska.

Alls bárust 28 gildar tilnefningar til verðlaunanna.

Dómnefnd 2013 var skipuð eftirfarandi aðilum:
• Brian Daniel Marshall, formaður dómnefndar, stjórn Heimilis og skóla
• Amalía Björnsdóttir, Menntavísindasvið Háskóla Íslands
• Haraldur F. Gíslason, Fomaður félags leikskólakennara
• Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, formaður foreldraráðs FG
• Sigríður Lára Ásbergsdóttir, deildarstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti
• Guðbjörg Jónsdóttir, skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar
• Guðrún Birna Jóhannsdóttir, verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti

Vodafone kostaði Foreldraverðlaunin 2013 en aðrir styrktaraðilar eru: MK Glerlist, Ikea og Blómagallerí.
Heimili og skóli þakka kærlega veittan stuðning.

Grundaskóli á Akranesi hlaut Foreldraverðlaunin 2012

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent í 17. sinn á tuttugasta afmælisári samtakanna þann 16. maí, við athöfn sem hófst kl. 14:00 í Þjóðmenningarhúsinu.

Formaður Heimilis og skóla, Ketill B. Magnússon, afhenti verðlaunin en Guðni Olgeirsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti, ávarpaði viðstadda fyrir hönd ráðherra sem forfallaðist því miður á síðustu stundu. Í ræðu ráðherra, sem Guðni flutti, kom fram að á næstu dögum verði gengið frá þjónustusamningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins við Heimili og skóla fyrir yfirstandandi ár og í kjölfarið verður unnið að langtímasamningi.

Söngleikjaverkefni Grundaskóla á Akranesi hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2012. Markmiðin með söngleikjaverkefninu eru fjölmörg og tengjast þau beint eða óbeint inn í námskrá skólans. Slík verkefni eru hins vegar kostnaðarsöm, tímafrek og eru að mestu leyti unnin utan við hefðbundinn skólatíma. Foreldrar hafa stutt þessi verkefni með mikilli sjálfboðavinnu og öflugri þátttöku með börnum sínum. Aðkoma foreldra er margvísleg og mikilvæg því mörg verk þarf að vinna við slíka uppsetningu og verkefnið eflir skólabraginn.

Auk Foreldraverðlaunanna sjálfra voru veitt Hvatningarverðlaun og Dugnaðarforkaverðlaun:

Hvatningarverðlaun 2012 hlaut Þorpið – þekkingarsamfélag en fyrir því fer Ragnheiður Kristinsdóttir iðjuþjálfi og foreldri í Laugarnesskóla. Verkefnið er starfrækt innan Laugarnesskóla og miðar að því að styðja við foreldra þeirra barna sem þurfa sérstakan stuðning innan skólakerfisins og byggist á jafningjafræðslu og þekkingarmiðlun.

Dugnaðarforkaverðlaun 2012 fékk Þóroddur Helgason, fræðslustjóri, fyrir ötult starf í þágu foreldra í Fjarðabyggð. Að þessu sinni bárust 28 tilnefningar til verðlaunanna.

Í dómnefnd árið 2012 sátu:

 • Borghildur Jósúadóttir, formaður dómnefndar, stjórn Heimilis og skóla
 • Amalía Björnsdóttir, Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 • Haraldur F. Gíslason, Fomaður félags leikskólakennara
 • Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, formaður foreldrafélags FG
 • Sigríður Lára Ásbergsdóttir, deildarstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti
 • Guðbjörg Jónsdóttir, skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar
 • Árni Guðmundsson, verkefnastjóri um aðgerðir gegn einelti

Heimili og skóli – landssamtök foreldra óska öllum tilnefndum innilega til hamingju og sérstaklega þeim sem unnu til verðlauna!

Foreldraverðlaun 2011

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla voru afhent í sextánda sinn 24. maí  kl. 15:00 í Þjóðmenningarhúsi við Hverfisgötu. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaunin en þetta árið bárust 42 tilnefningar.

Vinaverkefnið í Skagafirði hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2011. Verkefnið er samstarfsverkefni leik-, grunn- og framhaldsskóla í Skagafirði, frístundadeildar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, íþróttahreyfingarinnar og foreldra í Skagafirði.

Auk Foreldraverðlaunanna sjálfra voru veitt ein hvatningarverðlaun og dugnaðarforkaverðlaun. Hvatningarverðlaun 2011 hlaut Foreldrafélagið Örkin hans Nóa, leikskólanum Nóaborg, fyrir framúrskarandi gott foreldrasamstarf. Dugnaðarforkaverðlaun 2011 voru veitt til Þórólfs Sigjónssonar og Guðnýjar Vésteinsdóttur, foreldra barna í Hallormsstaðaskóla, fyrir sjálfboðaliðastarf á tímum fjárskorts, og öfluga og virka þátttöku foreldra í skólastarfinu.

Verðlaunagripir voru hannaðir af Rögnu Ingimundardóttur, leirlistakonu, sem jafnframt gaf samtökunum verðlaunin. Blómastofa Friðfinns gaf blómavendi og blómaskreytingu til Foreldraverðlaunanna.

Heimili og skóli færa eftirtöldum aðilum sem styrktu Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2011 bestu þakkir fyrir stuðninginn:

 • Vodafone
 • Ragna Ingimundardóttir, leirlistakona
 • IFS ráðgjöf
 • IKEA
 • Ísafoldarprentsmiðja
 • Blómastofa Friðfinns

Foreldraverðlaun 2010

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent í 15. sinn þann 1. júní, við athöfn sem hófst kl. 15:00 í Þjóðmenningarhúsi við Hverfisgötu.  Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaunin.

Handhafar Foreldraverðlaunanna 2010 eru Vinafjölskyldur í Vesturbæjarskóla, verkefni Margrétar Gylfadóttur, Sesselju Ólafsdóttur og Maríu Helenu Sarabia, foreldra í Vesturbæjarskóla.

Auk Foreldraverðlaunanna sjálfra voru veitt  ein hvatningarverðlaun og tvenn dugnaðarforkaverðlaun:

Hvatningarverðlaun 2010 hlaut Foreldrafélag Hvassaleitisskóla, Inga Ívarsdóttir formaður foreldrafélagsins og Linda B. Ólafsdóttir fulltrúi í skólaráði Hvassó, fyrir verkefnið Vinir í Hvassó.

Dugnaðarforkaverðlaun 2010 voru tvenn og voru veitt til Borghildar Jósúadóttur fyrir ötult foreldrastarf í framhaldsskólum og til Önnu Margrétar Sigurðardóttur fyrir framúrskarandi störf í þágu foreldrasamstarfs í Fjarðabyggð.

Að auki var Sigurveigu Sæmundsdóttur þakkað fyrir óeigingjarnt starf í þágu samtakanna, en Sigurveig hefur verið í dómnefnd fyrir Foreldraverðlaun Heimilis og skóla um langt árabil.

38 tilnefningar bárust til verðlaunanna að þessu sinni og voru 33 verkefni tilnefnd.

Grunnskólinn á Blönduósi og Fræðsluskrifstofa A- Húnavatnssýslu hljóta Foreldraverðlaunin 2009

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent í 14. þann 4. júní, við athöfn sem hófst kl. 16:00 í Þjóðmenningarhúsi við Hverfisgötu. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afhenti verðlaunin.

Handhafar Foreldraverðlaunanna 2009 eru eftirtaldir: Grunnskólinn á Blönduósi og Fræðsluskrifstofa A- Húnavatnssýslu hljóta Foreldraverðlaunin 2009 fyrir verkefnið Tökum saman höndum. Markmið verkefnisins er að bæta líðan og námsárangur nemenda í unglingadeild grunnskólans á Blönduósi.

Auk Foreldraverðlaunanna sjálfra voru veitt hvatningarverðlaun og dugnaðarforkaverðlaun.

Hvatningarverðlaun: Samstarfsverkefni Kópavogsskóla og Gjábakka. Markmið verkefnis er að brúa bilið á milli kynslóða.

Dugnaðarforkur: Björg Þorvaldsdóttir deildarstjóri sérkennslu við Nesskóla Neskaupsstað.

38 tilnefningar bárust til verðlaunanna að þessu sinni og voru 34 verkefni tilnefnd.

Starfsfólk leikskólans Tjarnarsels í Reykjanesbæ hlýtur Foreldraverðlaunin 2008

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent í 13. sinn 15. maí, við athöfn sem hófst kl. 16:00 í Þjóðmenningarhúsi við Hverfisgötu. Geir H. Haarde forsætisráðherra afhenti verðlaunin, í forföllum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra.

Starfsfólk Tjarnarsels hlýtur Foreldraverðlaunin 2008 fyrir verkefnið Lestrar- og skriftarhvetjandi umhverfi í leikskólanum Tjarnarseli. Inga María Ingvarsdóttir leikskólastjóri veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd skólans

Auk Foreldraverðlaunanna sjálfra voru veitt tvenn hvatningarverðlaun og ein dugnaðarforkaverðlaun.

Hvatningarverðlaun: Grunnskóli Siglufjarðar fyrir verkefnið Átak gegn einelti.  Þetta verkefni hlaut 3 tilnefningar og hefur því vakið óskipta athygli í samfélaginu á Siglufirði.
Foreldrafélag Svalbarðsskóla fyrir starfsemi foreldrafélags Svalbarðsskóla Dugnaðarforkur: Ingibjörg Baldursdóttir og Svanhvít Guðbjartsdóttir fyrir verkefnið Þjóðardagur –Börnin okkar í Flataskóla

Heimili og skóli óskar þeim til hamingju sem og öllum þeim sem hlutu tilnefningar til verðlaunanna

Íþróttafélagið Grótta á Seltjarnarnesi fær Foreldraverðlaunin 2007

Íþróttafélagið Grótta á Seltjarnarnesi hlýtur Foreldraverðlaunin að þessu sinni fyrir samræmingu skóladags og æfingatíma í samvinnu við bæjaryfirvöld og Grunnskóla Seltjarnarness. Formaður Gróttu, Bjarni Torfi Álfþórsson veitti verðlaunum viðtöku fyrir hönd samfélagsins á Seltjarnarnesi . Auk Foreldraverðlaunanna sjálfra voru veitt tvenn hvatningarverðlaun og

Íþróttafélagið Grótta á Seltjarnarnesi hlýtur Foreldraverðlaunin að þessu sinni fyrir samræmingu skóladags og æfingatíma í samvinnu við bæjaryfirvöld og Grunnskóla Seltjarnarness. Formaður Gróttu, Bjarni Torfi Álfþórsson veitti verðlaunum viðtöku fyrir hönd samfélagsins á Seltjarnarnesi .

Auk Foreldraverðlaunanna sjálfra voru veitt tvenn hvatningarverðlaun og ein dugnaðarforkaverðlaun.

Hvatningarverðlaun hlýtur Reykjanesbær fyrir að styðja við bakið á foreldrastarfi með veitingu styrks til ráðningu verkefnistjóra FFGÍR, (Foreldraráð og foreldrafélög grunnskólanna í Reykjanesbæ).

Hvatningarverðlaun hlýtur Guðlaug Snorradóttir og starfsfólk Nýbúadeildar við Hjallaskóla í Kópavogi, fyrir óeigingjarnt starf í þágu nýbúa.

Dugnaðarforkaverlaunin hlýtur Hlynur Snorrason fyrir forvarnarverkefni í Grunnskólum Ísafjarðarbæjar.

31 tilnefningar bárust til verðlaunanna að þessu sinni og voru 24 verkefni tilnefnd.