Foreldraráð og skólaráð

Foreldraráð

Leikskóli

Í leikskólum skal vera starfrækt foreldraráð og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að stofnun þess og kosningu í ráðið. Foreldraráð er skipað a.m.k. þremur foreldrum og skal kosning fara fram í september ár hvert og kosið til eins árs í senn. Ráðið setur sér starfsreglur sem það vinnur eftir og ber leikskólastjóra að vinna með ráðinu. Hlutverk foreldraráðs leikskóla er eftirfarandi:

 • Gefa umsagnir til leikskóla og leikskólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir er varða starfsemi leikskólans
 • Fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum
 • Hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi

Framhaldsskóli

Við hvern framhaldsskóla skal starfa foreldraráð og er það skólameistari sem sér til stofnun þess. Hlutverk foreldraráðs í framhaldsskóla er að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda. Einnig að efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda í samstarfi við skólann. Foreldraráð setur sér starfsreglur sem það vinnur eftir. Félagsmenn eru foreldrar nemenda í skólanum. Kosið er í stjórn ráðsins á aðalfundi sem haldinn er ár hvert. Foreldraráð tilnefnir einn aðila í áheyrnarfulltrúa í skólanefnd.

Skólaráð

Grunnskóli

Skólaráð er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald og skal slíkt ráð starfa við hvern grunnskóla. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun skólans og mótun sérkenna hans. Ráðið fjallar m.a. um eftirfarandi málefni:

 • Skólanámskrá skólans
 • Árlega starfsáætlun
 • Rekstraráætlun

Þegar fyrirhugaðar eru miklar breytingar á skólahaldi sendir skólaráð frá sér umsögn um málið áður en endanleg ákvörðun er tekin. Skólaráð hefur það hlutverk einnig að fylgjast með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda. Ráðið er skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn, þessir aðilar eru:

 • Tveir fulltrúar kennara
 • Einn fulltrúi annars starfsfólks viðkomandi skóla
 • Tveir fulltrúar nemenda
 • Tveir fulltrúar foreldra
 • Skólastjóri
 • Einn aðili úr grenndarsamfélagi skólans

Skólastjóri stýrir starfi skólaráðs og ber ábyrgð á stofnun þess, auk þess ber honum að boða til sameiginlegs fundar skólaráðs og stjórnar nemendafélags skólans a.m.k. einu sinni á ári.

Handbók um skólaráð má finna hér.