Foreldradagurinn

Foreldradagurinn er haldinn hátíðlegur í nóvember ár hvert og er hugsaður til þess að veita foreldrum hagnýtar upplýsingar um uppeldisaðferðir og hvetja til umræðu um foreldrafærni og ígrundun á foreldrahlutverkinu – mikilvægasta hlutverki foreldra.Foreldradagurinn var fyrst haldinn árið 2011 og hefur síðan þá fest sig í sessi.

 

Foreldradagurinn 2015

Föstudaginn 13. nóvember 2015 héldu Heimili og skóli Foreldradaginn hátíðlegan í fimmta sinn með því að blása til ráðstefnunnar Vellíðan í skóla – hvernig er dagur barnsins? Boðið var upp á veglega dagskrá þar sem viðfangsefnið var skoðað út frá ýmsum hliðum. Fyrirlesarar fjölluðu um samfellu í skóla-, íþrótta- og tómstundastarfi, heimanám, skaðlegan hávaða í skólastarfi, gildi slökunar og öndunaræfinga og gildi frítíma barna. Málþingið var haldið á sal Íslenskrar Erfðagreiningar. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra setti daginn og við tóku erindi sem tengdust þema dagsins á einn og annan hátt. Berglind Gísladóttir frá Háskólanum í Reykjavík fjallaði um hagi og líðan íslenskra skólabarna út frá niðurstöðum frá Rannsóknum og greiningu, Viðar Sigurjónsson frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands fjallaði um kosti við samfellu í skóla- og frístundastarfi, Valdís Jónsdóttir talmeinafræðingur flutti erindi um þann skaðvald sem hávaði er í skólastarfi, Ásta Ragnarsdóttir námsráðgjafi fjállaði um námsvinnu á nemaneti og Steingerður Kristjánsdóttir frá Háskóla Íslands fjallaði um gildi frítímans í námi og lífi grunnskólabarna. Eftir kaffihlé fjölluðu þær Unnur Jónsdóttir og Hrafnhildur Sigurðardóttir frá Hugarfrelsi um slökun og hugleiðslu í skólastarfi og í lokinn fóru fram pallborðsumræður. Erindi dagsins voru tekin upp og má horfa á þau hér að neðan.

Berglind Gísladóttir, Háskólinn í Reykjavík

Viðar Sigurjónsson, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands

Valdís Jónsdóttir, talmeinafræðingur

Ásta Ragnarsdóttir, námsráðgjafi

Steingerður Kristjánsdóttir, Háskóli Íslands

Unnur Jónsdóttir og Hrafnhildur Sigurðardóttir, Hugarfrelsi

Pallborðsumræður

 

 

 

 Foreldradagurinn 2014

Föstudaginn 31. október 2014 héldu Heimili og skóli Foreldradaginn hátíðlegan í fjórða sinn með því að blása til ráðstefnunnar Allir snjallir – snjallir foreldrar, snjallir nemendur, snjallir kennarar, snjallir skólar á Grand hotel. Ráðstefnan var afar vel sótt og heppnaðist með ágætum. Anna Margrét Sigurðardóttir formaður Heimilis og skóla setti ráðstefnuna og í kjölfarið flutti Illugi Gunnarsson stutt ávarp. Á mælendaskrá voru þau Kjartan Ólafsson deildarformaður félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri með erindið Internetið undir koddanum – börn og unglingar í Evrópu nota snjallsíma og spjaldtölvur, Sólveig Rósa Sigurðardóttir umsjónarkennari og verkefnastjóri í Sæmundarskóla með erindið Má ég nota síman minn til þess að glósa?, Elísabet Gísladóttir lögfræðingur hjá Umboðsmanni barna með erindið Hvað má og hvað má ekki? Vegna vonskuveðurs var Kjartan veðurtepptur á Akureyri og þurfti því að flytja erindi sitt og taka þátt í umræðum í gegn um Skype.

Eftir kaffihlé stigu þeir Stefán Jökulsson fjölmiðlafræðingur og háskólakennari og Trausti Þór Friðriksson vörustjóri hjá Símanum með erindin Tískubóla eða bráðnauðsynleg kunnátta? um mikilvægi miðlalæsis og Hlutverk fjarskiptafyrirtækja í aðgengi barna að netinu. Að erindunum loknum tóku við líflegar pallborðsumræður og fyrirspurnir úr sal þar sem meðlimir í Ungmennaráði SAFT létu í sér heyra. Ráðstefnustjóri var Ingvi Hrannar Ómarsson. Við þökkum styrktaraðilum Foreldradagsins 2014, Símanum og Sorpu, sérstaklega fyrir sinn stuðning.

Erindin voru tekin upp og eru aðgengileg hér að neðan.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra flutti stutt ávarp í upphafi þar sem hann sagði að við ættum að nálgast tæknina með jákvæðum hætti og hagnýta hana en minntist um leið á að ábyrgð foreldra væri mikil þegar kæmi að snjalltækjanotkun barna.

Kjartan Ólafsson deildarformaður félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri – Internetið undir koddanum – börn og unglingar í Evrópu nota snjallsíma og spjaldtölvur. Kjartan fjallar um niðurstöður rannsókna á netnotkun evrópskra barna.

Sólveig Rósa Sigurðardóttir umsjónakennari og verkefnastjóri í Sæmundarskóla – Má ég nota símann minn til þess að glósa? Sólveig fjallar um þróunarverkefni og snjalltækjavæðingu í Sæmundarskóla.

Elísabet Gísladóttir, lögfræðingur hjá Umboðsmanni barna – Hvað má og hvað má ekki? Í erindi sínu leitast Elísabet við að svara spurningum á borð við Má banna nemendum að koma með síma í skólann? Má taka síma af nemanda ef hann truflar kennslustund? Skiptir samþykki foreldra máli?

Stefán Jökulsson fjölmiðlafræðingur og háskólakennari – Miðlalæsi – Tískubóla eða bráðnauðsynleg kunnátta? Stefán fjallar um mikilvægi miðlalæsis og varar við því að gjáin milli þess sem nemendur læra í skólanum og gera utan hans breikki.

Trausti Þór Friðriksson, vörustjóri hjá Símanum flutti erindið Hlutverk fjarskiptafyrirtækja í aðgengi barna að netinu. Trausti fjallar um þær leiðir sem fjarskiptafyrirtækin bjóða viðskiptavinum sínum upp á í öruggri netnotkun barna.

Í lok dagskrárinnar sátu fyrirlesarar fyrir svörum.

 

Foreldradagurinn 2013

Foreldradagur Heimilis og skóla var haldinn í þriðja sinn í Menntaskóla Borgarfjarðar og heppnaðist vel í alla staði. Foreldradagurinn er hugsaður til þess að veita foreldrum hagnýtar upplýsingar um uppeldisaðferðir og hvetja til umræðu um foreldrafærni og ígrundun á foreldrahlutverkinu – mikilvægasta hlutverki foreldra. Í ár var Foreldradagurinn tileinkaður Hugo Þórissyni sálfræðingi sem lést nýverið og bar dagurinn yfirskriftina Komdu, ég þarf að hlusta á þig sem er tilvísun í Hugo og ber einstöku viðhorfi hans til foredrahlutverksins vitni.

Ketill B Magnússon setti daginn með því að lýsa helstu verkefnum og stefnumálum samtakanna: að stjórnvöld hafi skýra stefnu og setji menntamál í forgang, að foreldrar séu virkir í skólastarfi og að hlúð sé að velferð nemenda, að lögboðin réttindi nemenda séu virt og að allir sameinist um að tryggja vinnufrið í skólum landsins.

Í kjölfarið tóku við tvær kynningar á niðurstöðum viðamikilla rannsókna, annars vegar frá rannsóknum á vímuefnanotkun Rannsóknar og greiningar og frá SAFT könnun Capacent. Dr. Viðar Halldórsson sagði frá áhugaverðri þróun í vímuefnanotkun íslenskra ungmenna; vanlíðan nemenda hefur minnkað, neyslu áfengis hefur seinkað og tóbaksreykingar verulega dregist saman í grunnskólum landsins. Nokkrir þættir eru nefndir til útskýringar á þessum framförum en árangur af forvarnarstarfi hefur verið mikill, samverustundum unglinga og foreldra hefur fjölgað auk þess sem þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur stóraukist á síðustu áratugum. Hins vegar má greina skörp skil við komuna í framhaldsskólann; þá eykst notkun áfengis og annarra vímuefna mikið og svo virðist sem viðhorf foreldra breytist og slakni á taumnum, ekki eins mikill kraftur sé settur í forvarnarstarf og að þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi dvíni.

Jóna Karen Sverrisdóttir sté næst á stokk og fór yfir niðurstöður könnunar á vegum SAFT sem kortlagði netnotkun barna í 4.  – 10. bekk.  Könnunin, sem lagð var fyrir úrtak barna og foreldra þeirra, sýnir að netnotkun eykst mikið eftir því sem þau eldast en flest segjast þau hafa verið tæplega sjö ára þegar þau notuðu netið í fyrsta sinn. Notkunin eykst mikið eftir því sem þau eldast en um 67% þeirra segjast nota netið nokkrum sinnum á dag og 78% eru með eigin prófíl á samskiptamiðlum (s.s. facebook, twitter og instagram). Foreldrar þurfa að kynna sér notkun barnsins síns vel, setja þeim mörk og vera þeim innan handar ef eitthvað bjátar á enda inniheldur netið efni sem á ekkert erindi við börn. Um 38.8% barnanna viðurkenna að hafa gefið upp rangan aldur á netinu og 35.7% hafa farið inn á síður sem sýna klám. Eins er þurfa foreldrar að vera vakandi yfir áhættuhegðun barna en um 11% stúlkna á þessum aldri hafa verið beðnar um að senda af sér ögrandi mynd og um 2% þeirra hafa látið undan.

Í kjölfar erinda þeirra Viðars og Karenar tóku við þrjár samhliða málstofur: ein um netfíkn undir stjórn Eyjólfs Arnar Jónssonar um netfíkn, önnur um aðgerðir og forvarnir gegn einelti undir stjórn Páls Ólafssonar félagsráðgjafa og sú þriðja um forvarnir og úrræði fyrir unglinga í vímuefnaneyslu og foreldra þeirra.

Hægt er að nálgast glærur fyrirlesara hér:

Foreldradagurinn 2013: Ketill Magnússon

Jóna Karen – SAFT

Unglngar í vanda Guðrún Björg Ágústdóttir

Fagráð í eineltismálum Páll Ólafsson

 

Foreldradagurinn 2012

Heimili og skóli – Landssamtök foreldra héldu Foreldradaginn hátíðlegan í annað sinn fimmtudaginn 15. nóvember sl. í sal Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. Þema málþingsins í ár var Samskipti í samhengi og ræddu fyrirlesarar um viðfangsefnið frá ýmsum hliðum.  Erla Guðjónsdóttir, skólastjóri Öldutúnsskóla, var fundarstjóri að þessu sinni og fórst það hlutverk afar vel úr hendi.

Eftir að Erla setti málþingið steig Aðalbjörg Helgadóttir hjúkrunarfræðingur í pontu og flutti erindi um verkefni á hennar vegum sem nefnist Samskiptaboðorðin. Verkefni Aðalbjargar snýst um að fólk tileinki sér sex meginreglur í samskiptum sínum við aðraog sérstakelga þegar börn eiga í hlut, enda mótast samskiptafærni þeirra að stórum hluta í gegn um samskipti við fullorðna. Boðorð Aðalbjargar eru horfa, heilsa, hlusta, hljóma, hrósa og hjálpa og að hjálpa þeim börnum sem alast upp við þau af hendi uppalenda sinna að setja sig í spor annarra, sýna tillitsemi, virðingu og treysta öðrum. Næst á mælendaskrá var Björg Magnúsdóttir, stjórnmálafræðingur og MA í hagnýtri menningarmiðlun, sem flutti erindi á vegum SAFT um þau tækifæri og hættur sem eru á netinu. Hún kom auk þess inn á að upp væru að alast kynslóðir sérhæfðra notenda („alin upp á netinu”) sem hefðu greiðan aðgang og mikinn tíma til þess að vera á netinu og væri oftar en ekki miklu betur að sér en kynslóð foreldra þeirra þegar kæmi að tæknilegum úrlausnum. Björg varpaði upp skemmtilegum ummælum sem ungir netnotendur hefðu látið hafa eftir sér, en hún rannsakaði netnotkun barna og ungmenna í lokaverkefni sínu. Í kaffihléinu bauðst fundargestum að gæða sér á veitingum og spóka sig um á markaðstorgi þar sem ungbarnavörur, barnaleikföng, borðspil og netvarnir sem og efni frá Heimili og skóla og SAFT voru m.a. á boðstólum fyrir gesti og gangandi.

Þegar fundargestir höfðu snúið saddir og sælir til sæta tók Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi MA, kennari og ritstjóri hjá stjuptengsl.is til máls og spurði hvort íslenska skóla skorti heildstæða fjölskyldustefnu sem skapaði sem mestan stöðugleika og öryggi í lífi barna? Þá óháð fjölskyldugerð þeirra og fjölskyldumynstr, sem væru oft á tíðum flókin. Vel heppnuð fjölskyldustefna hvetur til skilnings og umburðarlyndis á mismunandi fjölskyldugerðum og kemur til móts við ólíkar þarfir fjölskyldna en eins og staðan er í dag geta flókin vensl gert boðleiðir og samskipti skóla við foreldra og forráðamenn þung í vöfum eða óskilvirk. Brunnið getur við að ábyrgðinni sé varpað yfir á börnin á ósanngjarnan hátt, t.d. þegar samskipti heimila og skóla fara fram með töskumiðum sem barnið á að afhenda foreldrum sínum sem búa kannski ekki á sama stað. Að lokum flutti Ketill B. Magnússon, formaður Heimilis og skóla, erindi um samskipti skólaforeldra við skólann þar sem hann brýndi fyrir foreldrum að vera óhrædd og hreinskiptin í samskiptum sínum við starfsfólk skólans; að foreldrar mættu ekki sitja auðum höndum og bíða heldur þyrftu að sjálfir að sýna frumkvæði og leitast við að kynnast kennurum og öðrum starfsmönnum skólans, velja réttan miðil, vera ósparir á samskipti og reyna aftur ef hnökrar gerðu vart við sig. Einnig kom Ketill inn á mikilvægi Foreldrasáttmálans í samskiptum foreldra sín á milli en Heimili og skóli standa að endurútgáfu hans um þessar mundir.

Fundargestir og skipuleggjendur voru á því að málþingið hefði verið afar vel heppnað og innihaldsríkt. Við hjá Heimili og skóla viljum koma kærum þökkum á framfæri við alla þá er gerðu okkur kleift að halda Foreldradaginn með því að útvega veitingar, halda fyrirlestra og hýsa þingið. Öldutúnsskóli hýsti ráðstefnuna og tók sem fyrr segir skólastjórinn, Erla Guðjónsdóttir að sér ráðstefnustjórn. Kökulist í Firði, Hafnarfirði, og Góa gáfu veitingar, Kaffitár gaf kaffi og allir fyrirlesarar gáfu vinnu sína. Fyrir þau ykkar sem ekki komust á þingið en hafið áhuga á að nálgast fyrirlestraefnið, er hægt að nálgast glærur hér:

Fjölskyldustefna skóla

Foreldradagurinn

Rafrænn heimur – frábær eða hræðilegur?

Samskiptaboðorðin: foreldrar til fyrirmyndar

 

Foreldradagurinn 2011

Foreldradagurinn 2011, málþing Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra, var haldinn í Háskólanum í Reykjavík föstudaginn 18. nóvember síðastliðinn.

Málþingið var ætlað foreldrum og var markmiðið að veita hagnýtar upplýsingar um uppeldisaðferðir og hvetja til umræðu um foreldrafærni og ígrundun á foreldrahlutverkinu – mikilvægasta hlutverki foreldra.

Dagskrá Foreldradagsins 2011 hófst með fundi fulltrúaráðs Heimilis og skóla þar sem fulltrúar úr foreldrafélögum allra skólastiga víðs vegar af landinu komu saman til að fjalla um foreldrastarf í skólum landsins og miðla hugmyndum um hvernig megi best sinna því mikilvæga verkefni.

Málþing Heimilis og skóla hófst klukkan 12:30 með setningarræðu Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra. Á málþinginu fluttu landsþekktir sérfræðingar á sviði uppeldismála erindi og að þeim loknum hófst sófaspjall þar sem rætt var við uppeldisfrömuði með fyrirspurnum úr sal.  Eftir kaffihlé gátu þátttakendur valið úr fjölbreyttum vinnustofum þar sem tekin voru fyrir mismunandi málefni barna og unglinga. Í lok málþings voru samantektir og umræður.

Meðan á málþinginu stóð var boðið upp á markaðstorg þar sem ýmsir aðilar kynntu starfsemi sína, námskeið, vörur og aðra þjónustu. Þeirra á meðal voru: starfsmenn Embættis landlæknis,  Fjölskyldumiðstöðin, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Bókaútgáfan Salka, fyrirtækið A4 Skrifstofa og skóli og Spilavinir. Þá lá frammi margvíslegt kynningarefni um foreldrastarf og uppeldi barna og unglinga.