Málefni Fossvogsskóla hafa farið hátt í fjölmiðlum undanfarna daga en í um þrjú ár hafa foreldrar barna í skólanum þurft að berjast fyrir réttindum barna sinna. Eftir áralanga sögu um mygluvanda innan skólans var loksins framkvæmd rannsókn að kröfu foreldra sem renndi stoðum undir það sem foreldrar, nemendur og starfsfólk vissi: að húsnæðið var heilsuspillandi og að þær viðgerðir sem Reykjavíkurborg hafði þegar ráðist í voru ófullnægjandi.

Í þrjú ár hefur nemendum og starfsfólki Fossvogsskóla verið gert að sinna námi og vinnu í óviðunandi
aðstæðum í heilsuspillandi húsnæði í boði Reykjavíkurborgar. Í þessi þrjú ár reyndu foreldrar barna í
skólanum að ná til eyrna skólayfirvalda í Reykjavík, óska eftir svörum, úttektum og umbótum. Viðbrögðinhafa vægast sagt verið óboðleg. Að lokum varð niðurstaðan sú að loka skyldi húsnæði Fossvogsskóla að beiðni foreldra líkt og formaður skóla- og frístundaráðs sagði í fjölmiðlum. Er það þá þannig að skólabörn geti verið í óboðlegu skólahúsnæði í Reykjavík svo lengi sem foreldrar átti sig ekki á því?

Í framhaldinu tók við röð skammtímalausna sem ekki sér fyrir endann á þrátt fyrir síendurtekin loforð um varanlegri úrbætur. Í ferlinu öllu hafa bæði verið brotin lög um skólaráð og einnig um kennsluskyldu. Það gefur auga leið að ekki er hægt að uppfylla kennsluskyldu skv. aðalnámskrá grunnskólanna þegar a.m.k. ein kennslustund á dag fer í akstur til og frá skólabyggingar í öðru hverfi.Hvernig ætla skólayfirvöld í Reykjavík að bæta nemendum upp þessa kennslu? Engin slík áform hafa verið lögð fram að hálfu Reykjavíkurborgar.

Nýleg ákvörðun að færa skólastarf nemenda í 2.-4. bekkjar í Víkina sem ekki er ætluð undir skólastarf var ekki lögð fyrir skólaráð og er það skýrt brot á 2. gr. reglugerðar um skólaráð við grunnskóla. Nauðsynlegt er að skólaráð fái tækifæri til að fjalla um þau málefni sem þau eru lögboðin til þess að sinna líkt og þessar meiriháttar breytingar á starfsemi skólans.

Það er því ámælisvert að Reykjavíkurborg hafi ítrekað reynt að koma sér undan því að hlusta á
hagsmunahópa í skólasamfélaginu og ganga fram hjá verkferlum sem lögfestir eru til að tryggja að
hagsmunir barna séu hafðir að leiðarljósi. Foreldrar verða að geta treyst því að skólayfirvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja réttindi og öryggi barnanna sinna. Það er skýlaus réttur barna að
skólayfirvöld bjóði ekki upp á húsnæði sem ógni heilsu þeirra.

Það er ljóst að Reykjavíkurborg hefur brugðist börnum, foreldrum og starfsfólki Fossvogsskóla í meðferð
þessa máls. Heimili og skóli – landssamtök foreldra og SAMFOK – samtök foreldra grunnskólabarna í
Reykjavík ætlast til þess að Reykjavíkurborg taki ábyrgð á stöðunni strax og sinni sínu hlutverki líkt og lög kveða á um.