Heimili og skóli, landssamtök foreldra fagna þeirri ákvörðun stjórnvalda um að grípa inn í samfélagið með afgerandi hætti svo stöðva megi vágestinn sem við þekkjum nú orðið allt of vel. Því fylgir stöðvun á skólahaldi flestra skólastiga sem  ljóst er að hefur verulegt álag í för með sér á börn og foreldra, heimilin í landinu. Talsvert hefur reynt á nú þegar og flest erum við orðin langþreytt og farin að hugsa til vorsins og betri tíðar. Þetta er því áskorun fyrir alla og nú eru það börnin sem treysta á sitt nærumhverfi, foreldra og fjölskyldu til  umönnunar og stuðnings þegar  tilbrigði veirunnar sem tíðrætt hefur verið um að sé meira smitandi og hættulegra börnum er á sveimi og skólanum þeirra hefur verið lokað.

Við minnum á fimm  ráð til foreldra á tímum heimsfaraldurs sem við beindum til foreldra á síðasta ári og eiga enn vel við í dag. Nú verður samfélagið allt enn á ný að snúa bökum saman og huga að svigrúmi og stuðningi fyrir foreldra á vinnumarkaði til að geta sinnt því hlutverki að vera til staðar fyrir börn sín. Í því ljósi hvetjum við atvinnurekendur til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til skapa þær aðstæður fyrir foreldra, til að vera með börnum sínum og fara í gegnum þetta tímabil með þeim. Þannig förum við í gegnum þetta saman og getum við verið viss um að sá sveigjanleiki skili sér í meiri samhug og samheldni til lengri tíma, fyrir alla. Við höfum gert þetta áður og getum þetta aftur!

Fimm ráð til foreldra á tímum heimsfaraldurs – Heimili og skóli