Heimili og skóli – landssamtök foreldra munu á næstu dögum auglýsa eftir nýjum framkvæmdastjóra þar sem núverandi framkvæmdastjóri, Hrefna Sigurjónsdóttir, hefur ákveðið að láta af störfum eftir 12 ára starf og snúa sér að öðrum verkefnum.  

Undanfarið hefur verið unnið að því að flytja skrifstofu og þjónustumiðstöð landssamtakanna af Suðurlandsbraut 24 í Reykjavík yfir á Laugaveg 176, 4. hæð, 105 Reykjavík. Einhver röskun mun því verða á starfi samtakanna þessa dagana og í ljósi þess biðjum við fólk að sýna biðlund.

„Það er óhætt að segja að við stöndum á ákveðnum tímamótum nú þegar við erum bæði að auglýsa eftir nýjum framkvæmdastjóra og tilkynna flutning af Suðurlandsbraut 24 þar sem landssamtökin hafa haft aðsetur til fjölda ára. Það verður óneitanlega mikill missir af Hrefnu sem gegnt hefur störfum fyrir landssamtökin við mjög góðan orðstír en hún hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra í tæp tíu ár. Í öllum breytingum felast tækifæri svo við höldum ótrauð áfram okkar mikilvæga og góða starfi og lögum okkur að nýjum aðstæðum.“ segir Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, formaður Heimilis og skóla.