PDF útgáfu af bréfinu má sjá hér

Þetta eru skrýtnir tímar sem við nú upplifum og afar sérstakir fyrir foreldrastarf þar sem foreldrar mega ekki koma inn í skólana. Sóttvarnir og reglur þeim tengdar setja daglegu lífi ýmsar skorður og foreldrastarf er þar engin undantekning. Erfitt er að skipuleggja viðburði og margir foreldrar ráðvilltir og óöruggir um hvort og hvernig skipuleggja eigi foreldra- og bekkjarstarf. Eins og í samfélaginu almennt þessa dagana er hér engin gullin regla en við hjá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra höfum þó tekið saman nokkur atriði sem koma vonandi að gagni við skipulag foreldrastarfs.

 1. Mikilvægt er að halda foreldrastarfi gangandi þegar aðstæður leyfa, þó í breyttri mynd sé. Foreldrafélög eru lögbundin og skólastjóri er ábyrgur fyrir stofnun foreldrafélags og á að sjá til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Því er mikilvægt að skólastjóri sé leiðandi á óvissutímum og í góðu samstarfi við fulltrúa foreldra. Einnig væri gott fyrir fulltrúa foreldra að leita til skólastjóra til að leggja línurnar með foreldrastarf á óvissutímum og fá hugmyndir. Samstarf er lykillinn hér líkt og í mörgu öðru.
 1. Mikilvægt er að gæta að sóttvarnafyrirmælum og samkomutakmörkunum. Taka þarf mið af ástandinu í samfélaginu hverju sinni og eðli málsins samkvæmt er hvorki æskilegt né skynsamlegt að stofna til hópasöfnunar þegar uppi er neyðarstig Almannavarna. Uppfærð tilmæli má ávallt finna á covid.is.
 1. Gæði foreldrastarfs er ekki endilega mælt í fjölda viðburða heldur hversu vel foreldrum tekst að halda utan um hópinn og vera samstíga í að styðja við börnin og setja heilbrigð mörk. Þegar kemur að fundarhöldum er um að gera að upphugsa nýjar leiðir líkt og gert er í atvinnulífinu um þessar mundir. Halda má rafræna fundi í gegnum ýmiss konar búnað sem hentar best hverju sinni og til dæmis mætti leggja Foreldrasáttmála og Læsissáttmála Heimilis og skóla fyrir rafrænt. Sáttmálarnir skapa góðan ramma í kringum umræður og hægt er að hafa óformlega undirritun sem einn tekur að sér að punkta niður eða í gegnum Google forms. Þegar takmörkunum léttir má einnig athuga annað hentugt húsnæði fyrir fundi ef skólinn er enn lokaður foreldrum, t.d. sali í hverfinu, safnaðarheimili, bæjarskrifstofu o.fl. þar sem rúmt er um þátttakendur. Í foreldrahópnum er mikill mannauður og mögulega einhverjir með tengsl sem nýst geta í þessu samhengi.
 1. Í Handbók foreldrarölts (https://reykjavik.is/sites/default/files/handbok_foreldrarolts.pdf) segir m.a.: „Foreldrarölt myndar tengsl og stuðlar að auknu samtali milli foreldra í hverfinu. Með því að taka þátt í foreldrarölti kynnist þú öðrum foreldrum og kynnist hverfinu þínu á annan hátt. Einnig hefur þú góð áhrif á hverfisbraginn og það félagslega umhverfi sem börn hverfisins búa í. Nærvera fullorðinna þar sem unglingar hafa safnast saman hefur róandi og fyrirbyggjandi áhrif. Slík nærvera gefur unglingunum líka tækifæri til að leita aðstoðar fullorðinna ef á þarf að halda.” Foreldraröltið hentar ágætlega þegar samkomutakmarkanir eru þar sem það er undir beru lofti og einfaldara að halda fjarlægðamörk. Hins vegar verður vissulega að taka mið af ástandinu hverju sinni þegar fólki er hóað saman og þegar neyðarstig er við lýði er eðli málsins samkvæmt ekki skynsamlegt að stefna fólki saman.
 1. Gott er að viðhalda tengslum við foreldrahópinn eins og hægt er til dæmis með facebook-hópi, pósti til foreldra eða með öðrum rafrænum leiðum. Foreldrar geta með því móti veitt hvort öðru stuðning og góð ráð og jafnvel stofnað til rafrænna viðburða svo sem að halda bingókvöld á zoom, spilakvöld eða spurningakeppnir. Um að gera að vera skapandi og finna upp á einhverju sniðugu. Ef einhverjir búa við slakan tækjakost eða lélega nettengingu gætu mögulega einhverjir í foreldrahópnum aðstoðað eða boðið bekkjarfélaga heim. Þá þarf eftir sem áður að huga að öllum tilmælum og sóttvarnaráðstöfunum sem uppi eru hverju sinni
 1. Eðlilegt er að margar spurningar vakni á tímum sem þessum og hér eru dæmi um nokkrar spurningar sem gagnlegt gæti verið að spyrja í skólanum:
 • Hvernig mun skólinn leitast við að tryggja öryggi nemenda?
 • Hvernig verður stutt við andlega heilsu nemenda og unnið gegn fordómum gagnvart þeim sem veikjast af COVID-19?
 • Hefur COVID-19 ástandið áhrif á öryggis- og eineltisáætlanir skólans?
 • Eru myndir af öllu starfsfólki á heimasíðu þannig að foreldrar geti betur áttað sig á kennurum og starfsfólki? Til dæmis gæti barnið verið með nýjan kennara og þar sem foreldrar hafa ekki mátt vera viðstaddir skólasetningar er mikilvægt að vita deili á kennurum. Kennarinn má ekki bara vera netfang í huga foreldra.
 • Hvernig verður félagslífi og viðburðum háttað?
 • Hefur skólastjóri hugmyndir og áætlanir um starf foreldrafélaga við breyttar aðstæður? Vert er að minna á að foreldrafélög eru lögbundin og skólastjóri er ábyrgur fyrir stofnun þess og sér til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum.
 • Hvernig get ég stutt við skólastarfið?
 1. Mikilvægt er að hugsa í lausnum á krefjandi tímum og huga að velferð barna og ungmenna. Verum hluti af skólasamfélaginu og ef við erum aflögufær á tíma og/eða annan stuðning reynum þá að hjálpa til með því að styðja við aðra nemendur og foreldra ef hægt er. Verum dugleg að minna börnin á einstaklingsbundnar sóttvarnir, handþvott og spritt auk þess að halda góðri fjarlægð þegar við á. Við gerum þetta saman og gott er að leggja áherslu á samtakamáttinn og samábyrgðina í umræðum um faraldurinn.

Að lokum er gott að hafa í huga að þessu ástandi mun linna og jafnvel fyrr ef góður samtakamáttur næst um viðbrögðin. Þangað til þurfum við að standa saman, hugsa í lausnum og vera til staðar fyrir hvort annað. Væntanlega munum við draga mikinn lærdóm af þessu öllu saman sem nýst getur síðar meir í foreldrastarfi sem og öðru. Þangað til höldum við áfram að gera okkar besta til að halda hlutunum gangandi. Meira er ekki hægt. Gangi ykkur vel með framhaldið og höldum áfram að vinna saman að góðum lausnum og samstarfi foreldra fyrir börnin okkar og samfélagið.

Frekara efni er að finna hér í nýju tímariti Heimilis og skóla: https://issuu.com/heimiliogskoli.is/docs/hs_timarit_2020