Foreldraverðlaun Heimilis og skóla voru afhent í 25. sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu á afmælisdegi samtakanna, 17. september 2020, en samtökin fagna nú 28 ára afmæli. Lilja D. Alfreðsdóttir, ráðherra mennta- og menningarmála, ávarpaði samkomuna og afhenti verðlaunin en að þessu sinni hlutu Smiðjur í Djúpavogsskóla og nytjamarkaðurinn NOTÓ Foreldraverðlaun Heimilis og skóla.  Einnig var útnefndur Dugnaðarforkur Heimilis og skóla og veitt voru Hvatningarverðlaun. Sérstök dómnefnd fór yfir allar tilnefningar líkt og vant er.

Hópmynd af þátttakendum Foreldraverðlaunanna 2020; tilnefndum og verðlaunahöfum með ráðherra, formanni dómnefndar, formanni Heimilis og skóla og framkvæmdastjóra. Mynd: MOTIV

Foreldrafélag Djúpavogsskóla fékk haustið 2018 húsnæði hjá Djúpavogshreppi og setti á laggirnar nytjamarkaðinn Notó, en enginn nytjamarkaður eða móttaka heilla hluta var fyrir á Djúpavogi. Rekstrarformið er þannig að Notó er opið einu sinni í viku og sjá nemendur skólans um að raða, verðleggja og afgreiða. Einn bekkur sér um hverja opnun undir leiðsögn eins til tveggja foreldra. Innkoma Notó rennur svo beint til barnanna og meðal þess sem fjármagnað hefur verið eru útirólur, leikrit, fyrirlestrar og stutt ferðalög fyrir nemendur. Þá hefur foreldrafélagið boðið upp á fjölbreyttar smiðjur, örnámskeið og fyrirlestra í nokkur ár. Markmiðið er að bjóða upp á einn til tvo viðburði á Smiðjuhelgi frá utanaðkomandi aðila og virkja foreldra og mannauð Djúpavogshrepps. Hefur það tekist með eindæmum vel og frábær stemning skapast meðal barna og foreldra og er Smiðjuhelgin orðin fastur viðburður í félagslífi skólans.

Hrefna Sigurjónsdóttir framkvæmdarstjóri Heimilis og skóla tók við foreldraverðlaununum fyrir hönd foreldrafélags Djúpavogsskóla. Mynd: MOTIV

Dugnaðarforkur Heimilis og skóla árið 2020 er Ragnheiður Davíðsdóttir. Hún hefur unnið að samstarfi heimila og skóla í sínu nærsamfélagi í mörg ár og í tilnefningu segir að henni séu félagsmálin hugleikin og að hún sé í góðu sambandi við félagsmiðstöðina og hverfamiðstöðina í hverfinu. Hún hefur setið í stjórn foreldrafélags Seljaskóla í mörg ár og verið bekkjarfulltrúi í Seljaskóla nær sleitulaust síðan árið 2004, eða þar til hún tók við formennsku í foreldrafélagi Seljaskóla. Í tilnefningu segir einnig að hún hafi haldið lífi í hverfisrölti foreldra.

Dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2020 ásamt ráðherra, formanni dómnefndar og formanni Heimilis og skóla. Mynd: MOTIV

Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla hlaut verkefnið Bókabrölt í Breiðholti. Foreldrafélögin fimm í Breiðholti hleyptu af stokkunum samfélagsverkefninu Bókabrölt í Breiðholti. Foreldrafélögin bjuggu hvert um sig til bókaskáp og fóstra hvert sinn bókaskáp sem eru staðsettir á fimm stöðum í Breiðholtinu en þar er hægt að gefa bók og þiggja bók. Í hillurnar má gefa allar tegundir bóka, á öllum tungumálum fyrir allan aldur. Tengt Bókabröltinu ákváðu foreldrafélögin í Breiðholtinu að kaupa bókaviðgerðarvél fyrir skólasöfnin í skólunum fimm. Þessi vél er einstök því með henni er hægt að gera við bækur þar sem blaðsíðurnar hafa losnað frá bókakjölunum þannig að þær verða aftur sem nýjar.

Handhafar Hvatningarverðlauna Heimilis og skóla 2020 ásamt ráðherra, formanni dómnefndar og formanni Heimilis og skóla. Mynd: MOTIV

Við óskum vinningshöfum innilega til hamingju og þökkum kærlega þeirra starf í þágu skólasamfélagsins. Vanalega eru Foreldraverðlaun Heimilis og skóla afhent að vori en vegna aðstæðna í þjóðfélaginu var afhendingu frestað til haustsins og ákveðið að afhenda verðlaunin á afmælisdegi samtakanna. Vissulega var athöfnin með ögn breyttu sniði vegna aðstæðna en þó afar ánægjuleg. Mikilvægt er að vekja athygli á því sem vel er gert í okkar samfélagi og ekki hvað síst nú þegar við þurfum að fást við ýmsar áskoranir meðal annars í foreldrastarfi þegar aðgangur foreldra að skólum er takmarkaður. Saman áorkum við miklu meiru en sundruð og Foreldraverðlaunin minna okkur á hverju samtakamátturinn fær áorkað.

Blómaval, Ikea og Svansprent styrkja Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2020.

Sigrún Eva Grétarsdóttir, fulltrúi foreldrafélags Djúpavogsskóla mætti á þjónustumiðstöð Heimilis og skóla og tók við Foreldraverðlaunum 2020 úr höndum Hrefnu, framkvæmdarstjóra Heimilis og skóla. Mynd: Hildur Halldórsdóttir