Í skólum þessa lands fer fram blómlegt starf á öllum skólastigum og á þeim óvissutímum sem nú ríkja sést vel hversu faglegt og sveigjanlegt skólastarfið er þegar það þarf að laga sig að breyttum kennsluháttum með litlum sem engum fyrirvara.  Foreldrastarf og samstarf heimila og skóla er mikilvægur hlekkur í farsælu skólastarfi og frá 1996 hafa Heimili og skóli – landssamtök foreldra leitast við að veita viðurkenningu góðum verkefnum sem fyrst og fremst hafa stuðlað að auknu samstarfi forelda, skólans og oft nærsamfélagsins.

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra verða veitt í 25. sinn nú í vor og verður opið fyrir tilnefningar á heimasíðu samtakanna www.heimiliogskoli.is út mars. Verkefnin sem hlotið hafa verðlaunin til þessa hafa verið af ýmsum toga, á síðasta ári hlaut til dæmis verkefnið Hjólakraftur í Norðlingaskóla verðlaunin en það verkefni er gott dæmi um heilsueflandi verkefni sem hefur falið í sér samstarf skólans, foreldra og þjónustumiðstöðvar hverfins en Hjólakraftur leiðir verkefnið.

Hægt er að tilnefna verkefni á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi  og er sérstaklega horft til verkefna sem stuðla að góðu samstarfi heimila og skóla.

Auk Foreldraverðlaunanna er hægt að tilnefna Dugnaðarfork Heimilis og skóla.  Þar er verið að leitast við að veita viðurkenningu einstaklingi sem hefur til langs eða skamms tíma lagt sérstaklega mikið af mörkum í foreldrastarfi eða lyft grettistaki í málum sem snerta skólastarfið.  Hægt er að tilnefna einstakling fyrir störf sín hvort sem er í leik-, grunn- , eða framhaldsskóla.

Veist þú um verkefni í þínum skóla eða þínu nærumhverfi sem ástæða er til að veita viðurkenningu? Þekkir þú einhvern sem á skilið klapp á bakið fyrir óeigingjarnt starf í þágu nemenda og foreldra? Hjálpumst að við að koma auga á hvunndagshetjurnar sem af óeigingirni leggja mikið á sig til að hlúa að samstarfi heimila og skóla. Þú getur tilnefnt verkefnið og/eða einstaklinginn á www.heimiliogskoli.is fyrir marslok og stuðlað þannig að því að einhverjir fái verðskuldað klapp á bakið.