Íslenskt samfélag tekst nú á við miklar áskoranir vegna heimsfaraldurs COVID-19. Ljóst er að skólahald mun skerðast þó allt kapp verði lagt á að halda skólastarfi uppi eins og mögulegt er. Af þeim sökum er vert að benda foreldrum á nokkur atriði er varða nám barna og unglinga á næstu vikum.

Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum stjórnvalda, m.a. á www.covid.is og fylgjast með fréttamiðlum og tilmælum skólanna um hvernig skólastarfi verður háttað næstu daga og vikur. Ýmsir aðilar hafa tekið höndum saman og vinna nú að því að bjóða upp á skemmtilegt og fræðandi efni til að ramma inn daginn og hvetjum við foreldra til að kíkja á það með börnunum. Fræðslugátt Menntamálastofnunar hefur nú litið dagsins ljós en þar eru námsgögn aðgengileg á rafrænu formi á vefsíðunni www.fraedslugatt.is. Einnig eru í burðarliðnum spennandi verkefni hjá RÚV og Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Við munum að sjálfsögðu deila þeim á okkar miðlum þegar þau eru komin í loftið. Einnig er vert að benda á að allir geta nýtt vef Menntastefnu Reykjavíkur þar sem finna má verkfærakistu með ýmiss konar námsefni: https://menntastefna.is/verkfaerakista/

Ánægjulegt er að sjá hvað samheldni og samhygð koma skýrt í ljós á tímum sem þessum en það eru ýmsir aðilar sem bjóða nú upp áhugaverða og fróðlega afþreyingu í gegnum netið fyrir börn og ungmenni. Þar má nefna Ævar vísindamann sem ætlar að deila daglegum upplestri úr bókinni Risaeðlur í Reykjavík og Siggu Dögg, kynfræðing, sem ætlar að deila kynfræðslu í beinni útsendingu meðan á samkomubanni stendur. Hægt er að fá nánari upplýsingar á fésbókarsíðum þeirra.

Ef þið lumið á góðum ábendingum um fleiri viðburði og gagnlegt efni megið þið endilega senda okkur línu á heimiliogskoli@heimiliogskoli.is.