Við hjá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra viljum ítreka mikilvægi þess að upplýsingagjöf til foreldra varðandi Covid-19 veiruna og samkomubann næstu vikur sé regluleg og skýr. Við þökkum það samstarf sem haft hefur verið hingað til og gott utanumhald að mörgu leyti en okkur hafa þó borist ábendingar frá foreldrum um nokkur atriði sem mættu vera skýrari og hvað þarf að hafa í huga. Við viljum því nota tækifærið og koma því á framfæri á fundi skólastjórnenda.

• Stjórnir foreldrafélaga og bekkjarfulltrúar þurfa að fá skýrar leiðbeiningar um starfið á næstunni og leggjum við til að þeim verði leiðbeint á þann veg að ekki skuli stofna til viðburða eða mannamóta á meðan á samkomubanni stendur. Einhverjir hafa verið að velta þessu fyrir sér og jafnvel skipuleggja viðburði sem skynsamlegt væri að láta bíða betri tíma. Gagnlegt væri að leggja hér skýrar línur og taka af allan vafa.

• Mikilvægt er að koma öllum upplýsingum frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og yfirvöldum til foreldra við fyrsta tækifæri á mismunandi tungumálum. Víðast hvar hefur það verið gert en þó hafa upplýsingar borist foreldrum mishratt innan sama sveitarfélags. Gott gæti verið að hafa hér einhvers konar samræmingu til að efla traust foreldra.

• Samtal við stjórn foreldrafélags og fulltrúa foreldra í skólaráði er mikilvægt í því augnamiði að lágmarka alla óvissu og sjá til þess að upplýsingar berist hratt og vel til foreldra.

• Gagnlegt er að benda foreldrum á trausta miðla og vefi þar sem leita má upplýsinga um þróun mála, til dæmis vef Embættis landlæknis og almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra: https://www.covid.is/

• Þegar skólahald skerðist er gagnlegt að senda foreldrum góð ráð og hugmyndir með skýrum hætti til að sinna námi heima fyrir og einnig að minna foreldra á að það skiptir máli hvernig við ræðum þetta ástand heima fyrir. Mikilvægt er að halda ró sinni og nálgast viðfangsefnið á skynsamlegan hátt en ekki síður mikilvægt að reyna að svara vel vangaveltum sem börn hafa. Einnig skiptir máli að stunda hreyfingu og hafa eitthvað fyrir stafni eins og hægt er til að stuðla að vellíðan barna og ungmenna.

• Loks munum við líkt og aðrir brýna fyrir foreldrum að fylgjast vel með fréttum og orðsendingum frá skóla til að meta ástandið dag frá degi sem og að fylgja fyrirmælum yfirvalda. Samtakamáttur er hér lykilatriði til að lágmarka skaða og vinna gegn þeirri vá sem nú stendur yfir. Gott væri að skilaboð skólayfirvalda og foreldrafulltrúa væru hér með svipuðum hætti.

Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks Heimilis og skóla,
Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri.

 

Bréfið á pdf formi má nálgast hér: Bréf til skólastjórnenda vegna Covid 19