Í gær, þriðjudaginn 25. febrúar, voru svæðasamtök grunnskólaforeldra AK-HVA stofnuð á fjölmennum fundi í Brekkjubæjarskóla á Akranesi. Að samtökunum standa foreldrafélögin í Brekkubæjarskóla og Grundaskóla á Akranesi og Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit og er tilgangurinn að auka samstarf félaganna um skólamál, uppeldi og menntun. Þessi samtök bætast nú í hóp fjölda annarra svæðasamtaka um land allt sem mynda fulltrúaráð Heimilis og skóla – Landssamtaka foreldra. Tinna Steindórsdóttir foreldri í Brekkubæjarskóla stýrði samkomunni en hún hefur borið hitann og þungann af undirbúningi fyrir stofnun samtakanna ásamt fulltrúum úr foreldrafélögum allra skólanna.  Bryndís Jónsdóttir verkefnastjóri hjá Heimili og skóla, Heiðrún Janusdóttir forvarnarfulltrúi á Akranesi og Sigrún Edda Eðvarðsdóttir formaður Heimilis og skóla héldu stutt erindi um foreldrastarf, mikilvægi foreldra í forvörnum og hlutverk svæðasamtaka. Nemendur skólanna þriggja buðu einnig upp á frábær tónlistaratriði. Við hjá Heimili og skóla óskum öllum sem að stofnun samtakanna standa innilega til hamingju og hlökkum til samstarfs við foreldra á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit.

Sigrún er þarna á mynd með Tinnu Steindórsdóttur sem borið hefur hitann og þungann af undirbúningi við stofnun samtakanna