Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir og formaður Heimilis og skóla, Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, skrifuðu í dag undir styrktarsamning til fimm ára sem felur í sér fjárframlag til að efla samstarf heimila og skóla í landinu og sinna ákveðnum verkefnum sem tilgreind eru í samningi. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2024 og er mikilvæg stoð til að tryggja rekstur samtakanna og öflugt samstarf við menntayfirvöld í landinu. Meginmarkmið Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra er að stuðla að bættum uppeldis- og menntunarskilyrðum barna með því að hvetja til og styðja við jákvætt og öflugt samstarf heimila og skóla og vera málsvari foreldra og nemenda en samtökin stýra einnig vakningarátakinu SAFT- Samfélag, fjölskylda og tækni í samstarfi við Barnaheill, Rauða kross Íslands og Ríkislögreglustjóra.

 

 

Samningurinn var undirritaður í Norðlingaskóla í Reykjavík undir lok heimsóknar ráðherra, formanns og fylgdarliðs þangað til að kynna sér verkefnið Hjólakraft í Norðlingaskóla sem hlaut Foreldraverðlaunin árið 2019. Sú hefð hefur skapast að ráðherra mennta- og menningarmála heimsæki verðlaunahafa ásamt fulltrúum Heimilis og skóla til að kynna sér verðlaunaverkefni og skólastarf. Skólastjórnendur leiddu gesti um skólann með viðkomu í dönskutíma og íþróttum í unglingadeild og list- og verkgreinakennslu hjá yngsta stigi. Því næst áttu ráðherra og formaður Heimilis og skóla samtal við fulltrúa nemendaráðs og fengu að kynnast lýðræðislegu starfi í skólanum t.d. er kemur að áherslum í námi og þar á eftir kynntu Arna Hrönn Aradóttir, verkefnastjóri hjá þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og Þorvaldur Daníelsson, eigandi Hjólakrafts, verkefnið í Norðlingaskóla og gestir gæddu sér á gómsætum veitingum í boði skólans. Að lokum var samningur milli ráðuneytis og Heimilis og skóla undirritaður og handsalaður milli mennta- og menningarmálaráðherra og formanns. Við þökkum Aðalbjörgu Ingadóttur, skólastjóra Norðlingaskóla og samstarfsfólki kærlega fyrir höfðinglegar móttökur.

Undirritun langtímasamnings milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Heimilis og skóla er mikið fagnaðarefni en unnið hefur verið að gerð hans í talsverðan tíma. Vonir allra aðila standa til að hann muni renna stoðum undir öflugt samstarf hlutaðeigandi með það að markmiði að búa sem best í haginn fyrir nemendur þegar kemur að menntun þeirra og velferð.