Lilja D. Alfreðsdóttir mennta – og menningarmálaráðherra veitti í dag 8. nóvember hvatningarverðlaun dags gegn einelti við hátíðlega athöfn í Vatnsendaskóla í Kópavogi.

Að þessu sinni hlaut Vanda Sigurgeirsdóttir verðlaunin fyrir mikilvægt framlag til rannsókna og forvarna gegn einelti auk úrlausna í einstökum eineltismálum. Henni var af því tilefni afhent viðurkenningarskjal og verðlaunagripur eftir listakonuna Ingu Elíni.

Ásamt ráðherra tóku til máls Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, formaður heimilis og skóla, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi og Salka Sól Eyfeld, söng- og leikkona.  Nemendur í Vatnsendaskóla fluttu tónlistaratriði og vinaliðar skólans stóðu heiðursvörð fyrir gesti.

Vanda starfar sem lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði og leggur nú stund á doktorsnám þar sem viðfangsefnið er einelti. Vanda hefur allan sinn starfsferil starfað með börnum og fullorðnum að eineltis- og samskiptamálum og er þekkt fyrir vinnu sína bæði hér heima og á erlendum vettvangi. Forvarnir gegn einelti eru hennar hjartans mál og hefur hún skrifað greinar og bókarkafla, stundað rannsóknir og staðið fyrir fræðslu bæði fyrir börn og fullorðna um einelti og jákvæð samskipti.

Heimili og skóli- landssamtök foreldra tóku í haust við því verkefni af Menntamálastofnun að halda utan um dagskrána á degi gegn einelti og óskar stjórn og starfsfólk samtakanna Vöndu innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.