Mennta- og menningarmálaráðuneyti gaf á dögunum út viðmið um framkvæmd heilsutengdra kynninga og fræðslu í skólum í kjölfar ályktunar Heimili og skóla um utanaðkomandi fræðslu og öryggi skólabarna.

Viðmiðin draga annars vegar fram fyrirmæli í aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla og hins vegar leiðbeiningar Landlæknisembættisins um hvað virkar í tóbaks-, áfengis- og vímuforvörnum í skólum. Ráðuneytið leggur áherslu á að allir skólar kynni sér viðmiðin og nýti þau til að ná fram heildrænum og árangursríkum forvörnum. Verða þau sett í Rafræna handbók um velferð og öryggi í grunnskólum.

Ráðuneytið beinir því sérstaklega til sveitarfélaga, annarra rekstraraðila skóla og skólastjórnenda grunn- og framhaldsskóla að skerpt verði á núverandi öryggisferlum, viðbragðsáætlunum og eftirliti með nemendum, ekki síst með tilliti til aðgengis óviðkomandi aðila að skólum enda sé mikilvægt er að börn og ungmenni búi við öryggi í skólum landsins.

Heimili og skóli fagna þessum viðbrögðum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og hvetjum alla til að kynna sér viðmiðin um heilsutengdar forvarnir og fræðslu í skólum hér og staðreyndablað Embætti Landlæknis um hvað virkar í tóbaks-, áfengis- og vímuforvörnum í skólum hér.