Markmið Foreldraverðlauna Heimilis og skóla er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fram fer innan leik-, grunn og framhaldsskóla, og þeim mörgu verkefnum sem stuðla að öflugu og jákvæðu samstarfi heimila, skóla og samfélagsins. Almenningur tilnefnir verðug verkefni og gjöfult sjálfboðaliðastarf og dómnefnd fer yfir tilnefningar. Samtökunum bárust þetta árið fjöldi tilnefninga bæði til Foreldraverðlauna og dugnaðarforks Heimilis og skóla en veitt voru tvenn hvatningarverðlaun auk Foreldraverðlaunanna og dugnaðarforkur Heimilis og skóla árið 2019 valinn. Hægt er að skoða bækling með öllum tilnefningum undir flipanum útgefið efni – bæklingar.

 

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2019 hlýtur verkefnið Hjólakraftur í Norðlingaskóla fyrir 1.-10. bekk. Verkefnið hófst á vorönn 2016 og er markmið verkefnisins að virkja alla nemendur skólans í hreyfingu í gegnum hjólreiðar og virkja foreldra þeirra með. Í niðurstöðum dómnefndar segir: ,,Þannig stuðlar verkefnið að bættri lýðheilsu íbúa og foreldra nemenda í úthverfi Reykjavíkurborgar í gegnum hjólreiðar. Verkefnið er samstarfsverkefni þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts, Hjólakrafts og Norðlingaskóla. Annað markmið verkefnisins er að ná til þeirra nemenda sem eru vanvirkir í skólaíþróttum, búa við erfiðar félagslegar aðstæður eða eru nýir íbúar í Reykjavík, með erlendan bakgrunn. Verkefnið hefur verið starfrækt í fjögur ár og hefur nú fest sig í sessi. Það fellur vel að markmiðum um heilsueflingu og umhverfisvæna lífshætti og allir eiga kost á að taka þátt óháð efnahag. Verkefnið eykur enn fremur félagsfærni og tengir saman ólíka einstaklinga í gegnum hjólreiðar.“

Veitt voru tvenn hvatningarverðlaun Heimilis og skóla árið 2019. Lestrarvinir í Víðistaðaskóla og Hrafnistu Hafnarfirði og Þollóween, bæjarhátíð í Þorlákshöfn hlutu verðlaunin.

Frá því haustið 2014 hefur Víðistaðaskóli við Víðistaðatún verið í samstarfi við Hrafnistu í Hafnarfirði. Deildarstjóri miðstigs og iðjuþjálfi á Hrafnistu sjá um skipulag og utanumhald á verkefninu sem snýr að því að efla og þjálfa lestur. Þátttakendur í verkefninu eru nemendur í 6. bekk og hópur heimilisfólks á Hrafnistu í Hafnarfirði. Markmið verkefnisins snýr bæði að lestri og tengslum við nærsamfélagið. Tveir til þrír nemendur í hverjum bekk eiga sameiginlegan lestrarvin og skiptast á að lesa fyrir hann. Þeir sem eru vel læsir lesa meira en þeir sem ekki hafa alveg náð tökum á lestrinum en markmiðið er að allir lesi. Mikil eftirvænting ríkir ávallt hjá nemendum þegar kemur að því að heimsækja vini sína á Hrafnistu og einnig hjá heimilisfólkinu sem alltaf tekur sérlega vel á móti nemendum. Fyrir skólalok heldur svo starfsfólk á Hrafnistu lokahóf fyrir nemendur og hitta þá nemendur úr öllum bekkjunum lestrarvinina sem þeir eiga sameiginlega. Í niðurstöðum dómnefndar segir m.a.: ,,Verkefnið hefur verið við lýði síðan 2014 og tengir saman kynslóðir. Það fellur vel að markmiðum lestrarkennslu og stuðlar að jákvæðum tengslum við nærsamfélagið.“

Hópur foreldra stóð fyrir veglegri bæjarhátíð í Þorlákshöfn í samvinnu við skóla og stofnanir bæjarins undir heitinu Þollóween.

Dagskráin, bæði var ætluð börnum og fullorðnum, samanstóð af viðburðum sem dreifðust á heila viku. Á dagskrá var m.a. grikk eða gott í Þorlákshöfn, hrollvekjusýning í Frístund og félagsmiðstöð, Skelfileg skrautsmiðja í skólanum þar sem allir gátu komið, föndrað, skorið út grasker o.fl., ónotanleg sundstund í sundlauginni, gönguferð með leiðsögn þar sem hinar ýmsu furðuverur spruttu fram, grafir og bein, vasaljósaleit fyrir yngstu börnin, Þollóween-ball fyrir 7. -10. bekk, draugahús í félagsmiðstöð fyrir 1. – 10. bekk, furðufatahlaup og taugaslakandi jóga. Verkefnið var unnið án allra styrkja í mikilli sjálfboðavinnu og vakti mikla lukku. Einnig var unnið með þemað í kennslu nemenda. Danskennari kenndi hryllingsdans, unnar voru hryllingssögur og margt fleira gert í skólanum. Í niðurstöðum dómnefndar segir m.a.: „Bæjarhátíðin Þollóween er samvinnuverkefni unnið af foreldrum í Grunnskólanum í Þorlákshöfn, skólanum og stofnunum í sveitarfélaginu. Verkefnið var unnið að frumkvæði foreldra. Hópurinn lagði á sig mikla vinnu og náði að skapa samheldni, samvinnu og skemmtun fyrir alla bæjarbúa en sérstaklega börn og fjölskyldur þeirra.“

Dugnaðarforkur Heimilis og skóla árið 2019 er Jolanta Krystyna Brandt en hún er pólsk að uppruna. Hún hefur náð góðum tökum á íslensku og hefur verið drífandi í allri samvinnu milli heimila og skóla í Dalvíkurbyggð og leggur mikinn metnað í öll störf sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún hefur gegnum tíðina hvatt aðra foreldra til þátttöku í ýmsum verkefnum og námskeiðum m.a. íslenskunámi og verið óeigingjörn á að túlka og þýða fyrir aðra foreldra og nemendur. Jolanta hefur starfað sem stuðningsfulltrúi í Dalvíkurskóla frá haustinu 2013 og lauk hún námi sem stuðningsfulltrúi vorið 2015. Jolanta hefur verið formaður foreldrafélags Dalvíkurskóla frá hausti 2017 og unnið óeigingjarnt starf í þágu skólans. Eftirtektarvert er hversu viljug Jolanta er að bæta við sig þekkingu og miðla henni til skólans, annara foreldra og samfélagsins alls. Jólanta er foreldri sem er virk í samvinnu skóla og heimila, bæði í leik- og grunnskóla. Í tilnefningu segir að hún sé drífandi og hvetji aðra til þátttöku í skólasamfélaginu.

Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu föstudaginn 24.maí 2019 og voru vel sótt af boðsgestum í blíðunni. Allir tilnefndir tóku við viðurkenningarskjali frá Heimili og skóla og formaður Heimilis og skóla, Sigrún Edda Eðvarðsdóttir og mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ávörpuðu samkomuna ásamt formanni dómnefndar, Eydísi Heiðu Njarðardóttur. Rætt var m.a. um þær áskoranir sem skólasamfélagið stendur frammi fyrir á mismunandi skólastigum en einnig um þann árangur sem þar hefur unnist. Allir voru sammála um að virkt og gróskumikið samstarf heimila og skóla væri mikilvægur þáttur í öllum árangri og að við þyrftum að hlúa að menntastofnunum, starfsfólki þeirra og nemendum. Boðið var upp á tónlistaratriði og upplestur grunnskólanemenda og gestum boðið að þiggja veitingar að athöfn lokinni. Við viljum þakka IKEA og Svansprent fyrir að styðja Forerldraverðlaunin