Í dag, 3. apríl, skrifuðu ráðherrar þriggja ráðuneyta og formaður Heimilis og skóla –  landssamtaka foreldra undir nýjan tveggja ára samning um rekstur SAFT verkefnisins við hátíðlega athöfn í Klettaskóla.

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, kynnti dagskrá og stýrði viðburðinum. Árni Einarsson, skólastjóri Klettaskóla, bauð gesti velkomna en starfsfólk og nemendur skólans sköpuðu einstaklega hátíðlega umgjörð um viðburðinn.  Katrín Árnadóttir nemandi í 8. bekk Hagaskóla og meðlimur í ungmennaráði SAFT kynnti í upphafi niðurstöður fundar ungmennaráða netöryggisverkefna í Evrópu um forgangsatriði netöryggismála.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta – og menningarmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, formaður Heimilis og skóla undirrituðu samning um áframhald SAFT verkefnisins sem stýrt er af Heimili og skóla en unnið í formlegu samstarfi við Rauða krossinn, Ríkislögreglustjóra og Barnaheill – Save the Children á Íslandi. SAFT stendur fyrir Samfélag, fjölskylda og tækni og hefur það að markmiði að vinna að jákvæðri og öruggri tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi. SAFT er í virku samstarfi við aðrar netöryggismiðstöðvar í Evrópu í gegnum samstarfsnet INSAFE og INHOPE og deilir með þeim upplýsingum, aðferðafræði og þekkingu. Markmiðið er að til verði sameiginlegur evrópskur sjóður þekkingar og aðferðafræði sem styður jákvæðar hliðar upplýsingatækninnar og spornar gegn þeim neikvæðu. Ráðherrar og formaður voru sammála um mikilvægi samstarfsins og lögðu áherslu á að hlúa bæri að velferð og vellíðan barna og unglinga á netinu og kenna þeim að fara vel með tæknina. Í því samhengi væri ekki síður mikilvægt að hlusta á raddir ungmenna og fræða þá sem eldri eru svo þeir geti orðið að gagni í þessu samhengi.

Kór Klettaskóla endaði athöfnina á skemmtilegum nótum með flutningi þriggja söngva undir stjórn Ingibjargar Aldísar Ólafsdóttur, þar á meðal var skólasöngur Klettaskóla sem saminn var af undirleikara kórsins Ólafi B. Ólafssyni. Heimili og skóli þakka skólastjórnendum, starfsfólki og nemendum í Klettaskóla fyrir höfðinglegar mótttökur sem gerðu ánægjulega stund enn ánægjulegri í morgunsárið.