Sú hefð hefur skapast að ráðherra mennta- og menningarmála og formaður Heimilis og skóla heimsæki handhafa Foreldraverðlauna Heimilis og skóla en verðlaunin hafa verið veitt sl. 23 ár. Árið 2018 hlaut Vogaskóli Foreldraverðlaunin fyrir verkefnið Láttu þér líða vel en Guðrún Gísladóttir, kennari í Vogaskóla, fer fyrir verkefninu og veitti verðlaununum viðtöku í maí á síðasta ári. Nemendur og starfsfólk skólans taka öll þátt í verkefninu en Vogaskóli er einnig þátttakandi í Heilsueflandi grunnskóla á vegum Embættis landlæknis. Verkefnið leggur áherslu á geðrækt og mikilvægi þess að byrja við upphaf skólagöngu að veita nemendum verkfæri til að stjórna eigin hegðun og líðan. Í skólanum hefur m.a. verið boðið upp á jóga, slökun og núvitundarþjálfun ásamt fræðslu sem nýtist börnum bæði í skólanum og heima fyrir.

Jónína Ólöf Emilsdóttir, skólastjóri Vogaskóla og Guðrún Gísladóttir, kennari tóku á móti Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og Sigrúnu Eddu Eðvarðsdóttur, formanni Heimilis og skóla ásamt fríðu föruneyti fimmtudaginn 31. janúar í upphafi skóladags. Viðstaddir fengu kynningu á verkefninu og skoðuðu síðan skólann og fjölbreytta starfsemi hans. Meðal annars var litið við í lestrarstund með hundinum Trölla, kennslustund hjá fyrrverandi kennara ráðherra, komið við hjá fyrstu bekkingum sem voru með „partý“ (eins og þau sögðu) í tilefni af 100 daga hátíð þar sem þau fögnuðu 100 fyrstu dögunum í skólanum. Að lokum var litið við í slökun þar sem nemendur létu þreytu og streitu líða úr sér í einni skólastofunni áður en tekist var á við verkefni dagsins. Boðið var upp á kaffi og glæsilegar veitingar og áttu hlutaðeigandi gott spjall um mennta- og uppeldismál og helstu áskoranir í því samhengi. Var þar m.a. rætt um mikilvægi góðs samstarfs heimila og skóla.

Mynd 1 f.v.: Framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, formaður Heimilis og skóla, Guðrún Gísladóttir, kennari, mennta- og menningarmálaráðherra og skólastjóri Vogaskóla.

Heimsóknin var hin ánægjulegasta í alla staði og varð ráðherra að orði að hún vildi gjarnan heimsækja fleiri skóla og kynnast því frábæra starfi sem unnið væri um víðan völl. Foreldraverðlaun Heimilis og skóla væru mikilvæg í að lyfta upp því góða starfi sem fram færi í og við skóla landsins og að nauðsynlegt væri að hafa sterk landssamtök heimila og skóla.

Mynd 2: Heilsað upp á hundinn Trölla sem hjálpar börnum að lesa.

Mynd 3: 100 daga hátíð fyrstu bekkinga.

Mynd 4: Slökun fyrir verkefni dagsins