Heimili og skóli – landssamtök foreldra munu leiða samstarf foreldrasamtaka á Norðurlöndunum næstu tvö árin, 2018-2020.

Norrænu foreldrasamtökin vinna saman undir merkjum NOKO- Nordisk Kommitté sem er vettvangur norrænna foreldrasamtaka frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. NOKO skipuleggur norræna foreldraráðstefnu annað hvert ár og haustið 2020 verður ráðstefnan haldin á Íslandi.

Þann 14.-15. september sl. hittust norræn foreldrasamtök á ráðstefnu NOKO á Gardemoen í Noregi. Á ráðstefnunni kynnti framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, Hrefna Sigurjónsdóttir, hið svokallaða ,,íslenska módel” sem snýst um það forvarnarstarf sem átt hefur sér stað í íslensku samfélagi síðastliðin 20 ár. Með því tókst m.a. að minnka unglingadrykkju 15-16 ára barna úr 42% í 5%, reykingar fóru úr 23% í 2% og þeir sem höfðu prófað kannabis úr 17% í 6%. Íslendingar fóru úr því að skora hæst í mælingum á vímuefnaneyslu unglinga í Evrópu yfir í að vera lægstir. Árangur þessi byggir m.a. á víðtæku samstarfi rannsakenda, stjórnvalda og grasrótarinnar, þ.á.m. foreldra. Erlendar þjóðir hafa veitt þessum árangri gríðarmikla athygli og höfum við hjá Heimili og skóla fundið fyrir þessum mikla áhuga. Heimili og skóli kynntu árangurinn og þær aðferðir sem beitt var á ráðstefnu NOKO um liðna helgi og mun þema NOKO samstarfsins næstu tvö árin snúast um forvarnir í víðu samhengi og er m.a. lagt út frá þeim aðferðum sem beitt er á Íslandi.

Forvarnarstarfi er aldrei lokið og nú eru blikur á lofti þegar nýjar rannsóknarniðurstöður gefa til kynna að samverustundum barna og foreldra á Íslandi fækki líkt og gerðist árið 2006 þegar góðærið stóð sem hæst. Þá hrakaði einnig árangri í lestri og ljóst er að þetta hangir allt saman. Samveran jókst aftur eftir hrun og börnum leið betur. Þrátt fyrir að vímuefnaneysla hafi minnkað umtalsvert þá hafa hass- og maríjúanareykingar aukist um 1% milli áranna 2017 og 2018. Unglingadrykkja á Norðurlöndunum er auk þess enn of algeng. ,,Við þurfum því að vera vel á verði og nýta allar tiltækar leiðir til að efla og viðhalda öflugu foreldra- og forvarnastarfi. Samtal og samstarf foreldra, skóla og samfélags er því afar mikilvægt í þessu samhengi. Norrænar þjóðir eiga margt sameiginlegt og geta lagt saman krafta sína í forvarna- og foreldrastarfi en heilbrigð umgjörð barna og líferni hafa mikið að segja til að tryggja vellíðan barna og árangur í námi,” segir Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, formaður Heimilis og skóla og bætir við: ,,Mikilvægt er að deila þekkingu meðal þjóða og eiga samtal um hvernig við getum sem best búið að menntun og uppvexti barnanna okkar og lært hvert af öðru.”

  • Frekari upplýsingar um norrænt foreldrasamstarf má finna á vef NOKO.
Fyrirlesarar úr vinnustofum, þ.á.m. Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, sem sagði frá íslenska módelinu og forvarna- og foreldrastarfi á Íslandi. Mynd: Heimili og skóli

Fyrirlesarar úr vinnustofum, þ.á.m. Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri
Heimilis og skóla, sem sagði frá íslenska módelinu og forvarna- og foreldrastarfi á Íslandi. Mynd:
Heimili og skóli

Frá NOKO ráðstefnu 14.-15. september sl.

Frá NOKO ráðstefnu 14.-15. september sl.