Margir frábærir smásagnahöfundar hafa litið dagsins ljós í Smásagnasamkeppni Kennarasambands Íslands og Heimilis og skóla.
Smásagnasamkeppnin er nú haldin fjórða árið í röð og hefur þátttaka frá upphafi farið fram úr björtustu vonum. Krakkar hvaðanæva af landinu hafa verið duglegir að senda inn smásögur en keppendum er skipt í fimm flokka. Þeir eru:
- Leikskólinn
- Grunnskólinn 1. til 4. bekkur
- Grunnskólinn 5. til 7. bekkur
- Grunnskólinn 8. til 10. bekkur
- Framhaldsskólinn
Verðlaun fyrir bestu sögurnar eru veittar á Alþjóðadegi kennara, eða kennaradeginum, sem haldinn er hátíðlegur hér á landi og um allan heim 5. október.
Þátttakendur hafa mikið frelsi í efnistökum en þemað að þessu sinni er skólinn / skóladagur.
Dómnefndina skipa Bryndís Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Heimili og skóla, Kristján Jóhann Jónsson, lektor á Menntavísindasviði, og Kristín Ómarsdóttir skáld. Þau hafa haft á orði að lestur smásagnanna sé eitt skemmtilegasta verkefni ársins.
Verðlaunahafar fá allir vandaða lestölvu frá Kobo sem les allar gerðir bóka. Þá verða verðlaunasögurnar birtar í prentútgáfu Skólavörðunnar sem kemur út í nóvember.
Frekari upplýsingar er að finna á vef KÍ.
Skilafrestur er til miðnættis 20. september og ber að skila handritum á netfangið smasaga@ki.is.
Eftirfarandi þarf að hafa í huga:
- Sagan má ekki hafa birst opinberlega og ekki vera lengri en 3.000 orð.
- Skila á sögum sem viðhengi í textaformati, til dæmis word-útgáfu (ekki pdf).
- Sagan á að vera á íslensku
Upplýsingar um höfund:
- Nafn
- Bekkur
- Skóli
- Tengiliður
- Heimilisfang og sími
Gætt verður fyllstu nafnleyndar á meðan dómnefnd fer yfir sögurnar.
Smásagnasamkeppnin er samvinnuverkefni Kennarasambands Íslands og Heimilis og skóla.
Fréttir af keppninni frá fyrri árum:
Smásagnahöfundar verðlaunaðir á Alþjóðadegi kennara (5. október 2017)
KÍ verðlaunar smásagnahöfunda á Alþjóðadegi kennara (5. október 2016)
Úrslit í smásagnasamkeppninni gerð kunn (5. október 2015)