Þórður Árni Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, afhenti Orðsporið 2018 – hvatningarverðlaun við hátíðlega athöfn í leikskólanum Álfasteini í Hörgársveit í dag.

Það var vel við hæfi að afhenda Orðsporið 2018 í Álfasteini því að þessu sinni komu verðlaunin í hlut sveitarfélagsins Hörgársveitar. Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri veitti Orðsporinu viðtöku.

Hörgársveit er það sveitarfélag sem státar af hæsta hlutfalli leikskólakennara sem starfa við uppeldi og menntun leikskólabarna. Samkvæmt lögum eiga að lágmarki 2/3, eða 66,66%, þeirra sem starfa við uppeldi og menntun í leikskóla að hafa leyfisbréf til kennslu í leikskóla. Hlutfall leikskólakennara sem starfa við uppeldi og menntun leikskólabarna í Hörgársveit er 84% og er því vel yfir lágmarkinu samkvæmt lögum.

Björk Óttarsdóttir, sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, flutti ávarp. Að loknu ávarpi Bjarkar sungu leikskólabörnin fyrir gesti.

Leikskólinn Álfasteinn – með sól í hjarta
Heilsuleikskólinn Álfasteinn er eini leikskóli Hörgársveitar – hefur verið starfræktur í 22 ár og rúmar 32 börn. Leikskólastjórinn Hugrún Ósk Hermannsdóttir hefur verið við stjórnvölinn nánast frá upphafi. „Fagmönnun er mikil og lítil mannaskipti. Starfsmannahópurinn eflir góðan starfsanda með því að hittast stundum utan vinnutíma. Hann er samstíga og líklega hefur skýr skólastefna, innleiðing Grænfána, heilsustefnu og Jákvæðs aga átt þar hlut að máli og skapað metnaðarfullt og hæfilega krefjandi skólastarf. Kennarar upplifa starfsánægju, að það sé vel tekið í hugmyndir þeirra og þeir geti nýtt sínar sterku hliðar,“ segir Hugrún.

Einkunnarorð Álfasteins eru „með sól í hjarta“ og mikil áhersla er lögð á umhyggju fyrir barninu. „Skólabragurinn er jákvæður og nægur tími gefst til að hlusta á börnin, leyfa þeim að prófa sig áfram og sinna þeim öllum persónulega. Því getur kennarinn upplifað nánd og endurgjöf og fundið að starf hans sé mikils virði. Það er gaman og gott að vinna og vera til á Álfasteini,“ segir Hugrún.

Sjötta árið sem Orðsporið er veitt

Orðsporið 2018 er veitt á Degi leikskólans, 6. febrúar en haldið er upp á þennan dag í ellefta sinn í dag. Sjötti febrúar er merkilegur dagur í íslenskri leikskólasögu því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Markmið dagsins er að stuðla að jákvæðri umræðu um leikskólastarf og beina athygli fólks að því faglega og metnaðarfulla starfi sem innt er af hendi í leikskólum dagsins á degi hverjum. Þetta er sjötta árið sem verðlaunin eru veitt.

Virðingarfyllst,

Samstarfshópur um Dag leikskólans;
Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytið,
Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli.

 

Fyrri Orðsporshafar eru:

2017 Framtíðarstarfið

  • Kennaradeild HA, Menntavísindasvið HÍ, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands fengu verðlaunin fyrir framlag og þátttöku í Framtíðarstarfinu – átaksverkefni um eflingu leikskólastigsins.

2016 Ásmundur Örnólfsson aðstoðarleikskólastjóri

  • Fyrir að vera framúrskarandi fyrirmynd fyrir karla í leikskólakennarastarfi og leggja sitt af mörkum til að efla orðspor leikskólakennarastarfsins.

2015 Kópavogsbær og sveitarfélagið Ölfus

  • Fyrir að sýna sveigjanleika þannig að starfsfólk leikskóla geti sinnt námi með vinnu; aðstoða við námskostnað og veita launuð námsleyfi.

2014 Okkar mál – þróunarverkefni

  • Verkefni sem fól í sér aukið samstarf skóla og stofnana í Fellahverfi.

2013 Súðavíkurhreppur / Kristín Dýrfjörð og Margrét Pála Ólafsdóttir

  • Súðavíkurhreppur fyrir að bjóða gjaldfrjálsan leikskóla. Kristín og Margrét Pála fyrir að vekja umræðu á málefnum leikskólans.