Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent í 22. sinn 2. maí 2017 við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu. Mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, ætlaði að afhenda verðlaunin en var því miður veðurtepptur á Akureyri. Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri, kom í hans stað.

Skíðaskóli Þelamerkurskóla hlýtur Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2017

Skíðaskóli Þelamerkurskóla býður öllum nemendum í 1.-4. bekk upp á skíðakennslu í tengslum við útivistardag skólans sem haldinn er í Hlíðarfjalli á Akureyri og er í 15 mínútna fjarlægð frá skólanum. Verkefninu var ýtt úr vör fyrir um þremur árum og undirstrikar mikilvægi góðrar samvinnu milli skóla og foreldra en verkefnið hefur það að markmiði að gera útivistardag skólans að degi þar sem allir geti rennt sér með bros á vör og gleði í hjarta eins og segir í tilnefningu. Það er mat dómnefndar að verkefnið gefi nemendum gott tækifæri til að kynnast bæði skíðaíþróttinni sem slíkri og nýta sér það sem nærsamfélagið hefur upp á að bjóða til útivistar. Auk þess veitir verkefnið öllum nemendum tækifæri til að öðlast aukna færni og öryggi í íþróttinni.

Í umsögn dómnefndar segir að foreldrar, kennarar, nemendur og starfsfólk Þelamerkurskóla eigi hrós skilið fyrir vel útfært verkefni og gott samstarf skóla og foreldra í tengslum við útivistardag skólans. Verkefnið muni vonandi stuðla að aukinni útivist og samveru en það er von dómnefndar að þetta verkefni geti verið öðrum til eftirbreytni og gefið nemendum jákvæða mynd af bæði útivist og hreyfingu í þeirra nærsamfélagi og hvatt þannig foreldra og börn til aukinnar samveru.

Mynd 1_Foreldraverdlaun_Þelamerkurskoli

 

Handhafar Foreldraverðlauna 2017 ásamt formanni dómnefndar, ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytis og formanni Heimilis og skóla.

 

Dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2017 er Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir

Í umsögn dómnefndir segir að Ásta Laufey sé góð fyrirmynd sem með þátttöku sinni í foreldrastarfi í gegnum árin sem almennt foreldri, bekkjarfulltrúi og formaður foreldrafélags hafi snemma áttað sig á mikilvægi góðs foreldrasamstarfs hvort sem er í leik- eða grunnskóla og hverju það getur áorkað. Hún býr yfir frumkvæði, er drífandi og hvetur foreldra til þátttöku með gleði, uppátækjum og umhyggju. Ásta hefur auk foreldrastarfs í skólum barna sinna sinnt foreldrastarfi í tómstundum barnanna, íþróttafélagi og tónlistarskóla.

Mynd 2_dugnadarforkur

 

Dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2017, Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir, ásamt formanni dómnefndar, ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytis og formanni Heimilis og skóla.

Veitt voru tvenn Hvatningarverðlaun 2017.

Dómnefnd ákvað að velja tvö verkefni og veita þeim Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla árið 2017.

Annað þessara verkefna er samstarf foreldrafélaga í Breiðholti. Verkefnið hefur verið starfrækt frá árinu 2015 og undirstrikar það mikilvæga og góða starf sem felst í öflugu og góðu samstarfi milli foreldrafélaga innan ákveðins svæðis og það forvarnargildi sem í slíku samstarfi liggur. Í tilnefningu segir meðal annars: Í eins stóru hverfi og Breiðholtið er, skiptir miklu máli að foreldrar vinni saman og hefur þessi samvinna foreldrafélaganna ótvírætt jákvæð áhrif á samfélagið. Það er mat dómnefndar að foreldrafélög grunnskólanna í Breiðholti, sem samanstanda af fimm grunnskólum: Breiðholtsskóla, Fellaskóla, Hólabrekkuskóla, Seljaskóla og Ölduselsskóla, séu vel að þessari tilnefningu komin. Hér er
um mikilvægt samstarf að ræða sem felur í sér forvarnargildi og jákvæð áhrif á nærsamfélag með hagsmuni foreldra, nemenda, skóla og samfélags að leiðarljósi.

Mynd 3

Handhafar Hvatningarverðlauna Heimilis og skóla 2017, fulltrúar foreldrafélaga í Breiðholti, ásamt formanni dómnefndar, ráðuneytisstjóra og formanni Heimilis og skóla.

Hitt verkefnið sem hlýtur Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla 2017 er Fróðir foreldrar, samstarf um foreldrafræðslu, og fór það af stað á síðasta ári. Verkefnið er gott dæmi um fyrirmyndarsamstarf sem farið hefur af stað af miklum krafti

og komið inn á viðfangsefni er snúa að því sem hæst ber hverju sinni. Um er að ræða foreldrafræðslu sem byggð er á óskum og hugmyndum ungmenna og foreldra í hverfum Miðborgar, Hlíða og Vesturbæjar og hefur verið mjög vel sótt. Fræðslunni hefur jafnframt verið streymt á netinu sem gefur öllum áhugasömum tækifæri á að fylgjast með. Í tilnefningu segir að verkefnið hafi það að markmiði að virkja rödd foreldra og samtakamátt þeirra sem mikilvægan þátt í forvörnum er kemur að uppeldi barna. Það er samstarfshópur foreldra, ungmenna, frístundamiðstöðva, þjónustumiðstöðvar og íþróttafélaga í Miðborg, Hlíðum og Vesturbæ sem stendur að verkefninu Fróðir foreldrar og lætur sig uppeldi, forvarnir og fræðslu varða.

Mynd 4

Handhafar Hvatningarverðlauna Heimilis og skóla 2017, Fróðir foreldrar, ásamt formanni dómnefndar, ráðuneytisstjóra og formanni Heimilis og skóla.

Í ár bárust 17 gildar tilnefningar, þar af tvær fyrir sama verkefni. Alls voru því 16 verkefni tilnefnd.

Við óskum öllum tilnefndum og verðlaunahöfum innilega til hamingju.

Dómnefnd 2017 var skipuð eftirfarandi aðilum:

  • Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, formaður dómnefndar, stjórn Heimilis og skóla
  • Aðalheiður Steingrímsdóttir, Kennarasamband Íslands
  • Guðni R. Björnsson, Foreldrahús – Vímulaus æska
  • Ragnheiður Bóasdóttir, mennta- og menningarmálaráðuneyti
  • Stefanía Sörheller, Reykjavíkurborg
  • Sveinbjörn Kristjánsson, Embætti landlæknis
  • Þóroddur Helgason, fræðslustjóri í Fjarðabyggð

Heimili og skóli þakka dómnefnd kærlega þeirra störf sem og IKEA sem styrktu Foreldraverðlaunin rausnarlega með römmum, gjafabréfum, blómum og veitingum. Einnig þökkum við Margréti Láru Jónsdóttur og Ástu Dóru Finnsdóttur, nemendum úr Allegro Suzuki tónlistarskóla, kærlega fyrir frábæran tónlistarflutning.

 

Mynd 5
Hópmynd af öllum tilnefndum til Foreldraverðlauna ásamt ráðuneytisstjóra, formanni dómnefndar og formanni Heimilis og skóla.

Save

Save

Save

Save

Save