Heimili og skoli logo_small

 

Reykjavík, 23. febrúar 2017

 

Efni: Ályktun stjórnar Heimilis og skóla vegna frumvarps til laga um verslun með áfengi og tóbak

Stjórn Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra tekur undir áskoranir Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Umboðsmanns barna og UNICEF, yfirlýsingar frá Embætti landlæknis, IOGT, Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum, bæjarstjórn Seltjarnarness og öðrum aðilum sem látið hafa í ljós andstöðu við frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak. Í umræddu frumvarpi er lagt til að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins verði aflögð og allir styrkleikar áfengis settir í einkasölu ásamt því sem auglýsingarbanni verði aflétt.

Fjölmargar rannsóknir sýna fram á að aukið aðgengi að áfengi eykur neyslu þess. Aukið aðgengi eykur þann skaða sem áfengisneysla veldur ekki einungis þeim sem þess neyta heldur einnig þriðja aðila. Aukin neysla áfengis mun auka kostnað ríkisins í heilbrigðiskerfinu, skólakerfinu, félagslega kerfinu og löggæslu, svo fátt eitt sé nefnt.

Á Íslandi hefur náðst eftirtektarverður árangur í að draga úr áfengisneyslu unglinga og líta önnur lönd til okkar reynslu til að stemma stigu við vanda í sínum löndum. Þetta má meðal annars sjá í þýðisrannsóknum Rannsókna og greininga. Nái þetta frumvarp fram að ganga er unnið gegn þeim árangri sem náðst hefur. Að setja jafnframt aukið fé í forvarnir mun ekki leysa vandann þar sem helsta forvörnin er að takmarka aðgengi með ríkissölu, háu verði og aldurstakmörkunum. Eins er auglýsingum gjarnan beint að ungu fólki og þá er enn meiri hætta á að áfengisneysla ungs fólks aukist. Nágrannalönd okkar hafa gert tilraunir með að breyta löggjöf um sölu áfengis og hefur reynslan af því ekki verið góð, þá má t.d. líta til Finnlands í því samhengi (Robin Room, 2002, T. Karlsson o.fl., 2010).

Nýverið var gefin út Lýðheilsustefna og aðgerðir sem stuðla að heilsueflandi samfélagi . Þar er lögð sérstök áhersla á börn og ungmenni að 18 ára aldri (Velferðarráðuneytið, 2016). Eitt af undirmarkmiðum stefnunnar er: „Að við stefnumótum og áætlanagerð stjórnvalda verði gætt að áhrifum heilsu og líðan á íbúa samfélagsins. Heilsa í allar stefnur krefst þess að alltaf sé stuðst við gagnreyndar upplýsingar um áhrif þátta á heilsufar“.

Fjölmargar rannsóknir sýna einnig tengsl áfengisneyslu við ofbeldi og sýna meðal annars að áfengisneysla er áhættuþáttur fyrir að verða gerandi ofbeldis og að tengslin séu það sterk að mikilvægt sé að draga úr aðgengi að áfengi og skaðlegri notkun áfengis sem hluta af ofbeldisforvörnum (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, 2006 og 2009).

Eins og hefur m.a. komið fram í fyrri áskorunum  og yfirlýsingum verður einnig að líta til Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna sem hefur verið lögfestur hér á landi. Þar kemur fram að það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang við ákvarðanir er varða börn. Þar sem áfengisneysla hefur víðtæk áhrif, og ekki bara á þann sem neytir þess, á þetta sannarlega við hér (www.barnasattmali.is).

Við hvetjum ríkisstjórn Íslands til að kynna sér málin frekar og halda sig við stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 en þar kemur fram að fjöldi rannsókna sýni að mikilvægt sé að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum til að vernda börn og ungmenni og eitt af áhersluatriðunum er að „öll börn og ungmenni eiga rétt á að alast upp í umhverfi þar sem þau eru vernduð gegn neikvæðum afleiðingum áfengis- og vímuefnaneyslu,“ (Velferðarráðuneytið, 2013). Stjórn Heimilis og skóla skorar því á stjórnvöld að samþykkja ekki frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak og setja þar með velferð barna og unglinga í forgang.

 

Virðingarfyllst fyrir hönd stjórnar,

Anna M.

Anna Margrét Sigurðardóttir,
formaður Heimilis og skóla –landssamtaka foreldra.
Heimildir

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (2006). Youth Violence and Alcohol. http://www.who.int/violence_injury_prevention/violence/world_report/factsheets/fs_youth.pdf

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (2009). Violence Prevention – the evidence. Preventing violence by reducing the availability and harmful use of alcohol. http://apps.who.int/iris/bitstream/10665/44173/1/9789241598408_eng.pdf

Embætti landlæknis (2017). Embætti landlæknis lýsir yfir andstöðu við bjór, léttvín og sterkt vín í almennum verslunum. http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item31501/Embatti-landlaknis-lysir-yfir-andstodu-vid-bjor,-lettvin-og-sterkt-vin-i-almennum-verslunum

Robin Room (editor) (2002). The effects of Nordic Alcohol Policies. What happens to drinking and harm when alcohol controls change? NAD Publication No. 42. http://www.dldocs.stir.ac.uk/documents/nad42.pdf

  1. Karlsson o.fl. (2010). A new alcohol environment. Trends in alcohol consumption, harms and policy: Finland 1990-2010. Nordic studies on alcohol and drugs. Vol. 27 http://www.nordicwelfare.org/PageFiles/4910/497_514_Karlsson.pdf

Velferðarráðuneytið (2013). Stefna sjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020.
https://www.velferdarraduneyti.is/media/rit-og-skyrslur-2014/Stefna-i-afengis–og-vimuvornum-desember-2013.pdf

Velferðarráðuneytið (2016). Lýðheilsustefna og aðgerðir sem stuðla að heilsueflandi samfélagi – með sérstakri áherslu á börn og ungmenni að 18 ára aldri.
https://www.velferdarraduneyti.is/media/skyrslur2016/Lydheilsustefna_og_adgerdaaaetlun_30102016.pdf

 

Hér má finna ályktunina í pdf:

Alyktun_áfengisfrumvarp_feb2017

Save