Stjórn Heimilis og skóla – landssamtaka  foreldra  lýsir yfir áhyggjum af fjárhagsstöðu framhaldsskóla í landinu.

Fram hefur komið að framlög til framhaldsskóla dugi ekki til og eru margir þeirra í greiðsluvanda. Vandinn er ekki nýr af nálinni en árið 2013 var einnig rætt um að framhaldsskólar ættu í erfiðleikum með að ná endum saman þar sem fjárframlög drógust saman um 12 milljarða króna frá árinu 2007. Einnig hafa kjarasamningar kennara haft áhrif á rekstur framhaldsskólanna þar sem ekki var gert ráð fyrir þeirri viðbót í rekstrarreikningi skólanna.

Sjö framhaldsskólar hafa sagt frá greiðsluerfiðleikum. Aðalvandi framhaldsskólanna er enn óleystur en rætt hefur verið um að endurskoða þurfi reiknilíkanið sem unnið er eftir þar sem forsendur hafa breyst síðan það var tekið í notkun. Eins og staðan er í dag eiga framhaldsskólar fullt í fangi með að halda uppi lögboðinni þjónustu við nemendur sína, ekki síst skólar sem bjóða upp á námsgreinar sem kalla á mikinn efniskostnað s.s. verknám. Rekstur skóla er samfélagslegt verkefni og ríkið hefur skyldur gagnvart nemendum. Gæta þarf hagsmuna þeirra nemenda sem sækja nám á framhaldsskólastigi. Heimili og skóli hvetja stjórnvöld til þess að leysa vandann  í samvinnu við hlutaðeigandi hið fyrsta og létta þar með þeirri óvissu sem framhaldsskólanemendur og fjölskyldur þeirra eru í.

 

Fyrir hönd stjórnar Heimilis og skóla,
Anna Margrét Sigurðardóttir, formaður