Foreldrastarf

Leikskólar

Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna en leikskólanum ber að veita foreldrum stuðning í uppeldi barna. Mikilvægt er að náið samstarf og gagnkvæmt traust skapist milli heimilis og leikskóla. Foreldrar þekkja barn sitt best, þeir hafa þekkt það frá fæðingu og fylgst með þroskaferli þess og líðan. Leikskólakennari kynnist barni í leikskólastarfi og þekkir þroska þess, færni og viðbrögð í barnahópi. Leikskólastjóra ber skylda til, samkvæmt lögum um leikskóla og reglugerð um starfsemi leikskóla, að stuðla að samstarfi heimila og leikskóla.

Markmiðið með foreldrasamstarfi er að:

 • veita foreldrum upplýsingar um starfsemi leikskólans
 • veita foreldrum upplýsingar um þroska barnsins og stöðu þess í leikskólanum
 • afla upplýsinga um aðstæður og uppeldisviðhorf foreldra
 • stuðla að þátttöku foreldra í starfi leikskólans
 • rækta samvinnu og samskipti leikskólans og heimilanna
 • skapa umræðuvettvang fyrir skoðanaskipti um uppeldi barna

Dagleg samskipti

Foreldrar þurfa að fylgjast með því sem helst hefur drifið á daga barns í leikskóla og leikskólakennari þarf að vita um helstu atburði í lífi barnsins utan leikskólans, t.d. ferðalög, leikhúsferðir og afmæli, sem gaman er fyrir barnið að segja frá. Mikilvægt er að foreldrar láti leikskólakennara barns vita ef breytingar verða á högum þess og fjölskyldulífi. Börn eru næm á allar breytingar og geta þær haft áhrif á líðan þeirra og hegðun. Eins er mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um innihald og markmið aðalnámskrár leikskóla svo þeir geti fylgst með námi barna sinna og stutt sem best við þau.

Handbók foreldraráða í leikskólum

Heimili og skóli hafa gefið út handbækur fyrir fulltrúa foreldra á öllum skólastigum. Í þeim er lýst starfi foreldrafélaga og foreldraráða. Hér getur þú nálgast Handbók foreldraráða í leikskólum sem pdf skjal.

 

Grunnskólar

Við upphaf skólagöngu

ER BARNIÐ ÞITT AÐ BYRJA Í GRUNNSKÓLA? Punktar til að hafa í huga: Upphaf skólagöngu er mikil tímamót fyrir þig og barnið Nú hefst 10 ára samstarf við skólann um menntun og velferð barnsins þíns þú berð höfuðábyrgð.

 • Nú hefst 10 ára samstarf við skólann um menntun og velferð barnsins þíns
 • Þú berð höfuðábyrgð á menntun þess skv. aðalnámskrá grunnskóla
 • Mikilvægt er að mæta á námskeið og fundi fyrir foreldra 1.bekkinga
 • Röltu með barninu um skólalóðina og helst um skólann, utan annatíma
 • Finndu bestu leiðina í skólann, farðu hana nokkrum sinnum með barninu og leiðbeindu því
 • Veldu skólatösku við hæfi sem fer vel með bæði barnið og töskurnar. Hafðu barnið með, það þarf að máta skólatöskur eins og föt
 • Aðgættu að barnið sé ekki að bera of þunga tösku og að þyngstu bækurnar séu næst bakinu
 • Sendu barnið alltaf með nægt og hollt nesti í skólann
 • Veittu barninu ríkulega hlýju, stuðning og áhuga
 • Gættu þess að hafa nægan tíma fyrir barnið á degi hverjum meðan það er að aðlagast skólanum
 • Mundu rétt þinn til 13 vikna launalauss foreldraorlofs frá vinnu – e.t.v. er þetta rétti tíminn til að nýta sér það?
 • Vertu í sambandi við kennarann, best er að þið styðjið hvert annað, því markmiðið er sameiginlegt: Velferð barnsins þíns!
 • Mikilvægt er að styðja við heimanám barnsins og að láta það lesa á hverjum degi

Handbók foreldrafélaga grunnskóla

Heimili og skóli hafa gefið út handbækur fyrir fulltrúa foreldra á öllum skólastigum. Í þeim er lýst starfi foreldrafélaga og foreldra- og skólaráða. Hér getur þú nálgast Handbók foreldrafélaga grunnskóla sem pdf skjal.

 

Framhaldsskólar

Birtist í Tímariti Heimilis og skóla 2005

Í könnun sem gerð var árið 1996 kom fram að mikill meirihluti nemenda og foreldra vildu auka samstarf og upplýsingaflæði í framhaldsskólum¹. Margt hefur breyst til batnaðar á síðustu árum, framhaldsskólarnir eru orðnir opnari en þeir voru og margir foreldrar meðvitaðri um mikilvægi samstarfs. Sífellt stærri hluti hvers árgangs hefur nám í framhaldsskólum landsins. Undanfarin þrjú ár hefur rúmlega 90% árgangsins haldið áfram í námi en hlutfallið var um 85% árið 1992. Brottfall úr framhaldsskólum er hins vegar mikið vandamál þó dregið hafi úr því á undanförnum árum. Mikilvægt er að leita leiða til að draga úr brottfalli og stuðningur foreldra skiptir þar gríðarlega miklu máli. Samstarf felur í sér að allir aðilar sem koma að skólanum leggi sitt af mörkum og því þurfa skólastjórnendur, kennarar, foreldrar, nemendur og yfirvöld menntamála að vera meðvitaðir um hlutverk sitt og reyna markvisst að auka samstarfið til hagsbóta fyrir nemendur. Mikilvægt er að foreldrar verði enn öflugri en þeir eru nú í samstarfi við framhaldsskólana , þeir þurfa að kynna sér vel framhaldsskóla unglingsins, í hverju námið felst og hvaða kröfur eru gerðar. Eins er mikilvægt að þeir fylgist með því sem er að gerast hverju sinni í lífi unglingsins bæði innan og utan veggja skólans. Foreldrafélög eru starfandi við marga framhaldsskóla og ættu foreldrar nýnema að nýta sér þann vettvang til að kynnast nýjum skóla betur.
Að mörgu er að huga þegar byrjað er í framhaldsskóla og segja má að nemendur séu að taka stórt skref inn í ókunnugan heim. Elín Thorarensen ræddi við Klöru Hjálmtýsdóttur og Kristínu Huld Gunnlaugsdóttur námsráðgjafa í Verzlunarskóla Íslands um það í hverju þessi breyting felst og hvernig nemendur og foreldrar þeirra geta tekist á við þessar breytingar.

Hverju þurfa nemendur að huga að er þeir byrja í framhaldsskóla, hverjar eru helstu breytingarnar sem þeir standa frammi fyrir?

Þegar nemendur byrja í framhaldsskóla standa þeir frammi fyrir mun meiri námslegum kröfum en þeir hafa vanist, auk þess sem námið byggir meira á sjálfsnámi nemenda þar sem þeir bera meiri ábyrgð á náminu. Einnig er mun meiri heimalærdómur en í grunnskóla. Nemendur sem hafa lítið lært heima í grunnskóla finna mest fyrir auknu álagi því þeir hafa ekki tamið sér að læra skipulega heima sama hversu góðir námsmenn þeir eru. Umhverfið sem nemendur eru að koma í er líka framandi. Þeir kunna til dæmis ekki á skólann/kerfið, þekkja ekki kennarana, námskröfurnar, samnemendur og þetta getur skapað óöryggi.

Hvert er hlutverk umsjónarkennara í framhaldsskólum?

Hjá okkur hér í Verzlunarskólanum er hlutverk umsjónarkennara að halda utan um nemendur í sínum bekk bæði hvað varðar námsástundun, hegðun og mætingu. Þeir leggja sig fram um að kynnast nemendum og eru á varðbergi fyrir því að nemendur til dæmis aðlagist ekki eða líði illa af einhverjum ástæðum. Það er einn umsjónartími á viku fyrsta árið sem umsjónarkennarinn notar til að kynna nemendum skólann, aðstoða þá við að takast á við lífið í framhaldsskóla, ræða um ýmsar forvarnir, hrista bekkinn saman með hópefli sem sagt nokkurs konar lífsleikni. Umsjónarkennari er líka tengiliður foreldra við skólann. Það eru haldnir tveir foreldrafundir hér í skólanum á fyrsta ári og einn fundur er á öðru ári með umsjónarkennara. Á þessum fundum geta foreldrar rætt við umsjónarkennara og fengið upplýsingar um barn sitt.

Hvert geta nemendur leitað ef þeim gengur illa að ná utan um námið til dæmis vegna aukins álags?

Nemendur geta bæði leitað til kennara eða til námsráðgjafa. Kennarar geta gefið góð ráð varðandi námsefni í sínu fagi. Námsráðgjafi hjálpar nemanda að fá yfirsýn yfir það sem hann þarf að gera og aðstoðar hann við að skipuleggja sig sem best. Nemandinn kemur þá gjarnan í viðtal einu sinni í viku í nokkrar vikur meðan hann eru að temja sér ný vinnubrögð.

Er einhverja aðstoð að fá í skólanum í sambandi við heimanám? Hvar liggja frammi upplýsingar um framboð og tímasetningar?

Boðið er upp á tíma í stærðfræði einu sinni í viku hér í Verzló og þá þannig að nemendur geta komið og reiknað og fengið aðstoð frá kennara. Þannig að ekki er um eiginlega kennslu að ræða. Þessir tímar eru auglýstir á sjónvarpsskjá, á auglýsingatöflum, með tölvupósti og af umsjónarkennara. Aðra aukakennslu verða nemendur að útvega sér sjálfir en hægt er að fá upplýsingar hjá námsráðgjöfum um aðila sem bjóða aukakennslu.

Hvaða spurningar verðið þið varar við að brenni helst á foreldrum við þessi tímamót?

Foreldrar eru mjög óöryggir með það hvort þeir megi skipta sér af og afla sér upplýsinga. Við hvetjum foreldra eindregið til að hafa samband við skólann ef þeir eru óöryggir með eitthvað. Þeir geta haft samband við umsjónarkennara sem hafa auglýsta viðtalstíma sem og námsráðgjafa. Allir foreldrar fá tölvuaðgang að ákveðnu svæði nemandans en þar koma fram gagnlegar upplýsingar um væntanleg verkefni, próf, einkunnir og mætingu. Þessi aðgangur dettur út við 18 ára aldur. Við hvetjum foreldra til að nýta sér þennan aðgang. Eftir 18 ára aldur geta foreldrar áfram haft samband við skólann þó tölvuaðgangur þeirra hafi dottið út.Það má samt ekki gleyma að láta nemendur sjálfa axla ábyrgð. Það er vænlegra til árangurs að sýna áhuga á því sem barnið er að gera, ræða um skólann, námið, vinina og félagslífið en ætla alveg að stjórna þeim. Mikilvægt er að hafa gaman af þeim og þeirri orku sem einkennir krakka á þessum aldri.

Einnig velta foreldrar fyrir sér hversu mikið þeir eiga að skipta sér af náminu. Það er mikilvægt að vera til staðar og geta gripið inn í fljótt ef eitthvað kemur upp á og hafa samband við skólann um leið og foreldrar finna að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Til dæmis ef nemandinn lærir aldrei, líður illa eða leiðist, þá er gott að tala við umsjónarkennara eða námsráðgjafa. Yfirleitt er hægt að leysa öll vandamál svo allir verði sáttir og því óþarfi að sitja ósáttur heima. Foreldrar velta einnig fyrir sér hvort þeir séu velkomnir í skólann og eigi til dæmis að mæta á skólasetningu. Allir foreldrar eru velkomnir í skólann og á skólasetningar og krökkunum finnst það sjálfsagt og eru ekki að spá í hver kemur með foreldri með sér eins og svo margir halda.

Til hvers eiga foreldrar að mæta á foreldrafundi?

Það er mjög mikilvægt að foreldrar mæti á foreldrafundi í skólanum. Það sýnir áhuga þeirra á velferð barnsins. Nemendum finnst skipta máli að þau mæti – þó þau segi oft annað. Aðalmarkmið haustfundanna er að kynna skólann, starfsfólk og helstu reglur fyrir foreldrum og þannig minnka bilið milli þeirra og skólans. Gefa foreldrum hugmynd um það umhverfi sem barnið þeirra er í á daginn. Hjá okkur er haustfundurinn þannig byggður upp að foreldrar mæta fyrst í hátíðarsal skólans þar sem aðstoðarskólastjóri ávarpar þau og segir frá helstu námsuppbyggingu og skólareglum, námsráðgjafi segir frá sínum störfum, félagslífs- og forvarnarfulltrúar frá sínum og fulltrúi nemendafélagsins frá starfsemi nemendafélagsins. Á eftir eru umræður sem verða oft fjörugar. Síðan fara foreldrar í stofur með umsjónarkennara barns síns og þar geta foreldrar bekkjarins rætt saman um það sem þeim liggur á hjarta. Að lokum gefst foreldrum tækifæri til að hitta skólastjórnendur, námsráðgjafa og umsjónarkennara undir fjögur augu ef þeir hafa áhuga á. Þetta eru fundir sem foreldrar eru mjög ánægðir með.
Hvað með félagslífið og þátttöku í því, hvernig eiga foreldrar að bregðast við þegar nemendur vilja halda partý, fara í partý og á böll og vera úti langt fram eftir nóttu?
Við viljum bara benda foreldrum á að taka ábyrga afstöðu eins og við segjum við krakkana. Skólinn mælist til þess að foreldrar séu heima þegar haldin eru partý þó þeir séu ekki sitjandi inni í stofu. Þeir eru þá til staðar ef eitthvað kemur uppá og partýin fara betur fram.

Hvaða aðilar innan skólans halda utan um félagslíf nemenda?

Hjá okkur eru það fyrst og fremst nemendur skólans en þeim til halds og trausts er félagslífsfulltrúi úr hópi kennara sem les yfir greinar, skoðar myndbönd o.þ.h. í þeim tilgangi að ekkert komi fram sem getur sært aðra eða brjóti lög. Félagslífsfulltrúinn er einnig á flestum viðburðum nemendafélagsins ásamt fleira starfsfólki skólans. Einnig höfum við forvarnarfulltrúa sömuleiðis úr hópi kennara sem stuðlar fyrst og fremst að forvörnum í öllum myndum, þ.e. gegn vímuefnanotkun, reykingum, átröskun, þunglyndi o.s.frv. Hlutverk þessara tveggja aðila er að stuðla að heilbrigðu og öflugu félagslífi nemenda.

Hvert er hlutverk foreldrafélaga í framhaldsskólum?

Hlutverk foreldrafélaga í framhaldsskólum er fyrst og fremst eins og í grunnskólum að standa vörð um hag nemenda skólans. Það er starfandi foreldrafélag hér sem hefur komið ýmsum góðum hlutum á framfæri. Það sem háir foreldrafélögum framhaldsskólanna helst er að nemendur verða 18 ára og lögráða eftir eitt og hálft til tvö ár í framhaldsskóla og þá hætta foreldrar mikið að skipta sér af foreldrastarfinu.

Hvaða fræðslu geta foreldrar sótt til skólans?

Haldnir hafa verið fræðslufundir á vegum forvarnarfulltrúa skólans einu sinni á ári en mæting hefur ekki verið alltof góð eða 30-50 manns. Á foreldrafundina á haustin hefur hins vegar verið mjög vel mætt eða um 300-400 manns hjá 340 nemendum sem við erum mjög ánægð með.

Eitthvað að lokum?

Já við viljum bara hvetja foreldra til að vera til staðar fyrir unglingana sína, fylgjast með því sem þau taka sér fyrir hendur bæði innan og utan skólans. Ef hægt er að ræða saman um mál sem koma upp þá auðveldar það líf unglingsins og getur komið í veg fyrir að hann lendi í aðstæðum sem hann ræður ekki við. Þetta er frábær tími í lífi unglinganna og um leið og foreldrar hafa gaman af öllu sem um er að vera hjá krökkunum en líta ekki neikvætt og með kvíða á allar þessar breytingar verður þetta líka frábær tími hjá foreldrunum.
¹ Elín Thorarensen. 1998. Samstarf heimila og framhaldsskóla: Viðhorf nemenda, foreldra og kennara. Kennaraháskóli Íslands. Meistaraprófsverkefni.

Handbók foreldraráða framhaldsskóla

Heimili og skóli hafa gefið út handbækur fyrir fulltrúa foreldra á öllum skólastigum. Í þeim er lýst starfi foreldrafélaga og foreldra- og skólaráða. Hér getur þú nálgast Handbók foreldraráða framhaldsskóla sem pdf skjal.